Tuesday, November 28, 2006

Stólinn

Kaupin á húsinu er næstum frágengin. Ekki er sama vesenið og heima, eins og að taka húsbréf, fara í greiðslumat, þinglýsingu osf. Nei hérna verður gengið frá öllu í einum rykk. Engin fasteignagjöld eða lóðagjöld. Í gær var ég alveg að rifna úr monti að verða orðinn íbúðargreifi. En núna þarf að versla í innbúið, en öllu á að stilla í hóf. Ég ætla ekki að safna drasli eins og á Íslandi. Ég er nefnilega haldin þeirri skelfilegu þráhyggju að engu má henda. Ég á orðið fulla geymslu að allskonar drasli og stundum hefur sameignin þurft að lýða fyrir þessa þráhyggju. Eins og gefur að skilja er ég orðinn býsna óvinsæll víða vegna þessarar veiki. Ég hef bæði í gríni og alvöru verið að kenna fólkinu mínu um þessa þráhyggju. Hér áður fyrr fékk maður aldrei að eiga hlutin sína í friði. Hvar eru rauðu spariskórnir sem þú gafst mér mamma? Þeir ég henti þeim fyrir tveim árum, þú notaðir þá aldrei. Hvar eru skautarnir mínir, mig langaði að skella mér á skauta. Við hentum þeim fyrir þrem árum þegar við tókum geymsluna í gegn. Núna í vetur fór ég að spyrja fjölskyldu mína um hvað hefði orðið um skíðin mín, sem, fóru á flakk í einhverjum flutningum fjölskyldunar. Mig langaði að fara í mína árlegu skíðaferð. Já hún systir þín var að hreinsa út úr geymsluni sinni um daginn og hún henti einhverjum skíðum og skíðaskóm. Maður var auðvitað djöfulli fúll að fá þetta í andlitið. Ég fer á skíði mesta lagi einu sinni ári og gömlu Atomatic skíðin og skórnir voru í fínu lagi og hefðu enst mér út lífið. Ekki fer ég að kaupa ný skíði fyrir þessar ferðir sem eru kannski frekar annað hvert ár. Þannig að núna er ég hættur á skíðum forever. Ég tók þetta bara sem dæmi, en það má auðvitað alltaf finna einhvern milliveg í ruslasöfnun. Ég hef því ákveðið að hér úti ætla ég ekki að safna neinum veraldlegum eigum. Hér ætla ég bara að eiga fötin mín. Nokkur pör af skóm, sjónvarp og tölvu og kannski fimm bækur. Fyrir utan þetta allra nauðsynlegasta, sem á bara að rúmast í einni ferðatösku eða fataskáp. Það er auðvitað myndavéladótið og ýmsir tölvuíhlutir. Sama með allan íburð. Honum verður stillt í hóf, en ætla þó að fá mér eitt af þessum massífu útiskákborðum Það er vel við hæfi að besti skákmaðurinn í N-Thailandi og kannski sá eini sem kann manngangin eigi svona borð. Ef menn trúa mér ekki með skákborðin þá tók ég nokkrar myndir á ferð minni einn daginn. Þessi borð eru jafnvel á fátækustu heimilum eins og hjá frænku í strákofanum. En það er nú reyndar einn til tveir hlutir sem væri til að bæta við "draslið" hérna. Mig langar dálítið að stunda hérna golf. Til þess að spila golf þarf maður að eiga hérna golfsett og kerru. Annað ætla ég ekki að eiga hérna nema kannski sæmilegan bíl.
Annars keypti ég fyrsta húsgagnið í gær, lítinn plaststól, sem hallast aftur og er virkilega notalegt að sitja í á svölunum eða við sundlaugina. Hann kostaði mig 350 bath.










































Taflborð IV
Taflborð V
Taflborð VI
Taflborði VII

Einbýlishúsið III

Í raun hefði alveg verslunarhúsnæðið í miðbænum dugað sem sumarhús, því það er alveg nógu stórt. Það er meðal annars hægt að gera flotta tveggjaberbergja íbúð eða stóra stúdíóíbúð í þessu húsnæði. Ég tók því miður ekki þátt í að fjármagna verslunarhúsnæðið, enda kostaði það svo sem ekki mikið í upphafi, en kannski maður hefði viljað skoða þann möguleika að byggja ofaná húsið, til að fá stærra húsnæði. Það er að sjálfsögðu ennþá hægt og jafnvel þriðja hæðina, sem yrði þá svona útsýnissvalir. Allt kostar þetta, en ekki mikið á íslenskan mælikvarða nóta bene. Fljótlega eftir að húsið var byggt 2005, þá flutti bróðir hennar þjónninn frá Pattaya norður til Wangsapung með fjölskyldu sína og byrjaði bissnes í húsnæðinu, en síðan flutti hann yfir götuna í hentugra húsnæði. Þannig að í fyrstu skipti sem ég kom í húsið vorum við fimm að kúldrast þarna. Næst þegar ég kom í húsið stoppaði ég bara nokkra daga, en í þriðja skiptið sem ég kom núna höfðu foreldrar hennar hafið þarna sjoppurekstur. Þannig að núna vorum við aftur að kúldrast fimm í húsinu, sem var auðvitað hið besta mál, því hér úti hjálpast fólk að eins og hægt er. Þannig var það líka á Íslandi, en samt er fólk þar almennt mjög nískt á húsin sín. Þau eru heilög og sem dæmi þá spurði ég móður mína eitt sinn hvort hún gæti ekki prófað að biðja bræður sína um eina helgi í sumarbústað þeirra, en þeir eiga allir fjórir fína bústaði sem eru í þægilegri fjalægð frá Reykjavík. Móðir mín á ekki neinn ennþá, en hefur lengi dreymt um að eignast einn slíkan. Sjálfur hef ég reynt að fá hana í félag um sumarhús, en hún er ennþá að hugsa málið. En svarið við spurningu minni var þvert nei. Hún myndi sko ekki þora að spyrja bræður sína um að fá að dvelja í sumarhúsi þeirra, því það væri ekki séns. Samt er mjög gott samband milli þeirra systkina, en svona er þetta bara. En í Tailandi yrði örugglega fussað og svejað ef þeir fréttu hversu Íslendingar væru eigingjarnir, því hér hjálpast allir að sem er aðdáunarvert. En það var samt þarna í þrengslunum sem ég var farinn að leiða hugann að fasteignum, annað hvort að stækka verslunarhúsnæðið, byggja nýtt td á stóra landinu, eða kaupa gamalt. Ég er nú bara þannig að maður vill helst hafa allt prívat og þegar maður fer í frí þá vill maður hafa það svipað eða betra en heima. En í síðustu viku varð smá breyting því ein af tölvubúðum fjölskyldunnar ætlar að flýtja í húsið og leigja það og því var ákveðið að leggja sjoppureksturinn af í bili. Annars saknar maður dálitíð sjoppurekstrarins. Þetta var svona eins og litlu verslanirnar sem maður ólst upp við í austurbænum í gamla daga, pínulitlar sjoppur þar sem maður keypti sér frostpinna. Ég var meir að segja sjálfur farinn að afgreiða þarna, en fastakúnnarnir voru litlir strákar að kaupa sælgæti. Ég var farinn að fara í innkaupaleiðangur á bílnum til að fylla lagerinn af drasli og ég hafði orðið töluverðan áhuga á reksrinum. En núna breytist margt og eftir að tölvubúðin kemur verður samt mun hreinlegra í húsinu en samt er farið að þrengja enn meira að okkur því eiginlega þarf tölvubúðin líka svefnherbergið okkar. Þannig að ég stakk upp á því að við reyndum að eignast gamla húsið í sveitinni og fengjum núna loksins að vera prívat. Þegar ég hafði náð að tala Deng á mitt band var allt sett í gang. Hún hafði lengi vel fussað og svejað yfir húsinu, en ég held að þegar hún fór að hugsa um staðsetninguna, þá hafi henni snúist hugur. Þetta var líka dæmi sem við eigum að ráða við auðveldlega og engar skýjaborgir eða draumórar. Síðan fengi maður þá hagleiksmenn, Bömmarann og Dojarann sem allt geta til að laga húsið á nokkrum dögum fyrir lítin pening. (á íslenskan mælikvarða) Núna förum út að borða og höldum upp á þetta sagði ég og ljómaði af gleði. Deng fór síðan að horfa á húsið og bætti við, já og mega svo ekki pabbi og mamma selja dót niðri. Jú að sjálfsögðu sagði ég, en þegar ég hafði sleppt setningunni þá fatti ég að ég hafði talað af mér. Þetta var nú ekki beint hugmyndin bak við kaupin, en húsið er samt það vel staðsett eða beint við veginn. Meira og minna öll vel staðsett hús eru sölubásar. Sennilega hafði ég keypt einn slíkan, þannig að það fer sennilega aftur að þrengja að okkur. Kannski maður fari bara að skoða stærri villur fljótlega. En samningurinn var undirritaður í dag og ég borgaði löggunni 5000 bath sem fyrstu greiðslu. Húsið verður afhent á morgun, en við höfuð 10 daga til að ganga frá lokagreiðslu. Myndin var tekin við undirritun, en sjálfur má ég ekki eiga húsið, því lög hérna banna Farang að eiga hér eignir.

Friday, November 24, 2006

Í Sumarhús

Nú erum við á leið í sumardavalastað sjálfs kóngsins. Vonandi hittir maður hans hátign og frú og ber þeim kveðju frá vinum okkar á Íslandi. Þetta verður spennandi. Kóngurinn á afmæli 5. desember og það er einn mesti hátíðisdagur á öllu árinu. Til hamingju kæri kóngur.

Einbýlishúsið II

Það var ákveðið í vikunni að vera bara dálítið hógvær. Öllum áformum um að byggja villu á landareigninni var frestað og ákveðið að skoða litla einbýlishúsið á horninu, sem ég var búinn að horfa hýru auga til. Um er að ræða tveggja hæða gamalt hús, en húsinu fylgir frekar lítil landareign, en er samt vel staðsett. Eftir að hafa skoðað húsið í vikunni var bara ákveðið að reyna að kaupa. Húsið er á frábærum stað í um 100 metra fjarlægð frá glæsivillu Óla Thai og fjölskyldu og á næsta reit verður líka systirin í Austuríki maður hennar austuríski sérsveitarmaðurinn Bernard. Síðan er þarna tölvusnillingurinn Nai með sína villu, þannig að staðsetningin er frábær og svo er þessi eign góð fyrir verkamannafjölskyldu af Íslandi sem kemur kannski í mesta lagi í 2-3 mánuði á ári í sumarhúsið. Húsið er í eigu lögreglumanns hér, en hann leigir eldir konu sem hefur ekki borgað krónu í leigu í nokkra mánuði. Leiðinlegt samt að þurfa að henda henni út, en hún er strax byrjuð að væla blessunin. Húsið kostar tæplega 300.000 bath (600.000 kr), þannig að þetta er bara bíldrusluverð á Íslandi. Þá átti Deng bara eftir að biðja um smá heimild til að tryggja okkur húsið, en hún skuldar engum neitt heima á Íslandi, en hún hefur lagt hverja einustu krónu af sínu sparifé í átta ár hjá Spron í Mjódd. Eina sem hún þurfti að gera var að fá hækkun á yfirdrætti úr 0.0 kr í 300.000 kr. En að snara út 300.000 krónum, en því miður er ekki alltaf auðvelt þegar maður þarf að "díla" við Spron. Það er nefnilega ekki sama hvort maður er 18 ára unglingur sem býri í foreldrahúsum eða útlensk kona sem á eignir um allar trissur og skuldar ekki krónu. Unglingurinn getur fengið hálfa milljón í yfirdrátt með því að smella fingri, en það er oftast vonlaust að fá eina krónu fyrir nýbúann sem þó er orðin íslenskur ríkisborgari, eða þannig lýtur maður stundum á málin þegar fíkur í mann. Af hverju hef ég alltaf átt greiðan aðgang að bankakerfinu þótt ég hafi á árum áður stundað línudans í fjármálum, en hún fær aldrei krónu. Ég var því dálítið æstur í gær og var að senda tölvupósta út og suður til að komast að hvar við værum eiginlega með vanskil. Þar sem ég er með helmingi hærri tekjur en hún, hefur það verið mitt hlutverk að sjá um alla stóru reikningana eins og íbúðarlán og fasteignagjöld osf. Ég hef því alltaf leyft mér þann "munað" að borga fasteignagjöldin í lok hvers árs, með öllum þeim vanskilagjöldum og vöxtum sem því fylgja. En Deng sjálf skuldar engum neitt. Vonandi náum við að semja við lögguna áður en það verður of seint. Ég tók að gamni saman eignir frú Deng. Þs sameiginlegar eignir.
1. Blokkaríbúð í Reykjavík (markaðsvirði 18 millj. áhv. 11-12 millj)
2. Opel Vectra 1996 (400.000)
3. Benz Herramaður (ómetanlegur)
4. Verslunarhúsnæði í Thai (500.000)
5. Ford pallbíll (1.200.000 kr árið 2000)
5. Stór landareign (kostaði 250.000 kr, en hefur hækkað í 500.000 kr) hluti sést á mynd
6. Nýja einbýlisbúsið (600.000)


























Tuesday, November 21, 2006

Árás & rán

Það var ráðist á mig í dag! Atburðurinn átti sér stað þegar við fórum að skoða frægt búddaklaustur sem er staðsett upp á fjalli í um tíu kílómetra fjarlægð frá Wanshapung. Til þess að komast í musterið þarf að ganga upp heljarinnar langan stiga, en einnig er hægt að taka kláf upp á toppinn. Við fórum öll stórfjölskyldan, meðal annars Sigurður Rúnar, Seth bróðir Deng, Deng, Beng, frænkan í strákofanum og sonarsonur hennar litli sonur Muuds. Við keyptum okkur öll svaladrykk áður en við héldum í fjallgönguna, en í stiganum var ráðist á mig og ég rændur. Ég átti mér einskis ills von hér í Thailandi og þótt maður sé veraldarvanur, þá gleymir maður sér stundum. Í útlöndum og sérstaklega í 100 milljón manna landi getur maður alltaf átt von á svona árásum og þessvegna er ég alltaf með innanklæðaveski og tek oftast vasamyndavélina með í skoðunaferðir. En ég átti ekki von á árás í Thailandi í dag. Hélt ég væri óhultur fyrir ákveðnum DRULLUSOKKUM að heiman, en kannski hafði hann bara ákveðið að framkvæma morðhótunina hér í Thailandi og sent á mig einn af sínum skíthælum. Nei þetta gat eiginlega ekki verið einn af glæpahundum Svarthöfða því það var innfæddur Thailendingur sem réðst á mig. Þetta var frekar smávaxinn en snöggt Thaikvikindi sem óð í mig, en hann var nú reyndar apakyns. Ég hafði áður kynnst öpunum við klaustið sem hafa verið gæludýr munkana þarna og við höfðum verið að fóðra þá og gefið þeim banana og majisstangir. Majisstangirnar eru í miklu uppáhaldi, en þeir eru ekki eins hrifnir af banönunum, einhverja hluta vegna. Hins vegar eru þeir styggir og ef maður tekur eina hraða hreyfingu, þá eru þeir flúnir nokkra metra afturábak. En sumir af forustuöpunum eru miklu kaldari og Þessi sem var við stigann var ekkert annað en þrautþjálfaður ræningi. Við löbbuðum upp þennan erfiða stiga, ég, Deng, litla Beng og litli sonur Muud. Hinir biðu niðri í skugganum hjá sölumönnunum. Við höfðum ákveðið að nota ekki kláfinn sem þó býðst öllum sem vilja skoða musterið. Í miðju fjallinu ræðst apinn á son Muuds og tekur af honum svalardrykkinn. Strákurinn verður auðvitað skíthræddur og ég hleyp á eftir honum upp stigann og ætla að stugga apanum frá, en ólíkt öllum öðrum öpum sem ég hef kynnst þarna, þá varð hann ekkert hræddur heldur starði beint og illilega á mig og hjólaði svo í mig með klónum og viti menn hann reif af mér hlutinn sem ég var með í höndunum án þess að ég gat rönd við reist. Hverju stal hann eiginlega frá mér? Ég var með eina myndavél uppi, þá dýrustu Nikon D-50, en síðan var ég með öll mín verðmæti í töskunni, m.a Kodakvélina, Panasonic videovélina, MP4 spilarann, 100 dollara Ray-Ban sólgleraugun, veskið með nokkur þúsund böttum osf. Nei því sem hann stal frá mér var það sem hann girntist mest. Ég hélt nefnilega á jógúrthyrnu í bréfumbúðum og hann vissi nákvæmlega innihaldið. Síðan stökk helvítið yfir í næsta tré og reif upp jógúrthyrnuna og drakk hana af áfergju beint fyrir framan nefið á mér. Honum hafði tekist þarmeð að ræna tvær mannverur á innan við mínútu. Við fórum síðan upp og skoðuðum klaustrið, reyndar í tíunda sinn, en strax við klausturinnganginn beið hann okkar aftur aðeins þrjá metra í burtu. Nú ætlaði hann að ræna okkur í þriðja skiptið, því strákurinn hafði nú fengið gefins annan svaladrykk. Núna varð ég meira viðbúinn og greip kúst sem munkarnir nota og notaði sem vopn gegn apahelvítinu. Ég bað strákinn um að klára drykkinn áður en við héldum niður stigann og síðan rak ég kústinn í fésið á apanum, sem hörfaði fimlega niður stigann. Um miðjan stigann sat hann svo aftur fyrir okkur sallarólegur, en hann hefur fundið það á lyktinni að við vorum ekki með meira matarkyns og því hugði hann ekki á fleirri árásir í bili. Ég smellti því mynd af helvítinu og við héldum svo áfram niður stigann, en þegar við vorum næstum alveg komin niður stigann ákveður hann að renna sér aftur á eftir okkur. Ég var orðinn þreyttur á helvítinu og fann því stórann grjóthnullung sem ég ætlaði að þrusa í hausinn á honum, en Deng stoppaði mig af. Þetta má víst ekki sagði hún og hló svakalega, en mér var ekki skemmt. Þetta eru víst heilagar skeppnur í þessu klaustri, en ég ákvað samt að skjóta þungum steininum í átt til hans og við það fipaðist helvítið. Þessi api er ekki sá stærsti þarna, en hann er samt sá eini sem hefur hjólað í mig. Þetta eru því verstu kynni mín við þessa apa því ég er með stórt klór á handleggnum og kannski verð ég að kíkja á þetta á heilsugærslunni í kvöld. Óli Thai var reyndar búinn að segja mér að einn forustuapinn hefði ráðist á hann og stokkið upp á bakið á honum í hreinni illsku. Kannski eru þessir apar að verða ofaldir og agresífir, hver veit? En við förum þá bara varðlega í næsta skipti sem við heimsækjum þessa thailensku frændur vora.
APARNIR-HÉR


























Friday, November 17, 2006

Stoltið

Ég hef verið að standa í léttum rökræðum á spjallsíðum á Íslandi, þar sem umræðuefnið er útlendingamál. Yfirleitt heyrir maður alltaf sömu tugguna
1. Útlendingar sem hingað koma nenna ekki að læra íslensku.
2. Útlendingar sem hingað koma hafa engann áhuga á landi og þjóð.

Svo fylgir oft með einhver gömul tugga, um útlendingana sem komast á kerfið. Biðraðirnar af gulu fólki fyrir utan féló osf. Mér finnst þessi klisja um útlendingana sem hingað koma til skemmri eða lengri tíma og nenni ekki að læra málið vera staðhæfulaus. Jú, menn héldu þessu fram að mikill meirihluti þeirra sem hingað kæmu, nenntu ekki að læra málið eða kynnast landinu og ég vildi endilega fá að heyra rökstudd dæmi, því ekki hef ég ástæðu til að rengja þetta fólk sem heldur þessu fram. Ég hef reyndar aldrei sjálfur heyrt frá "útlendingi" að þeir vilji ekki læra íslensku, heldur þvert á móti. Allir sem ég hef talað við hafa viljað læra að tjá sig á íslensku. Hverjir vilja koma til Íslands til að starfa hérna og hafa ekki áhuga á að læra málið. Getur fólk "funkerað" í vinnu, eða getur fólk bjargað sér yfirhöfuð út í þjóðfélaginu. Tökum dæmi um slavneskt fólk, sem hingað kemur og kann ekki ensku frekar en íslensku. Það þráir auðvitað að kunna málið, svo það geti fengið betri vinnu og lýði hér vel að öðru leiti. Hins vegar er tungumálið skelfilega erfitt að læra og fólk reynir því að bjarga sér á ensku á meðan. Sumir enskumælandi komast upp með þetta allt of lengi, vegna þess að fólk getur auðvitað bjargað sér á alþjóðamálinu, en ég er sannfærður um að þeim lýður ekki vel með þetta. Ég verð að viðurkenna að ég nenni ekki að tala ensku við útlendinga sem hafa verið hérna lengur en 2-3 ár. Finnst það óþarfi og svara þeim yfirleitt alltaf á íslensku.
Ástæðan fyrir því hversu mér er þetta hugleikið er sú að í mínu tilviki er málinu snúið við. Ég er staddur í öðru landi, þar sem tungumálið er framandi og núna er ég í stöðu útlendingsins. Enginn veit hvað ég verð hérna mikið á næstu árum, en næst gæti ég þurft að dvelja mun lengur. Að halda því fram að allir farang (falang) í Thailandi hafi engann áhuga á landi og þjóð og hafi engann áhuga á að læra málið er auðvitað sama vitleysan. Ég fullyrði að allir falangar hérna vilja læra tungumálið, en hins vegar er margt líkt með íslensku og tælensku. Þessi tungumál eru skelfilega erfið að læra. Ég hef setið hérna blóðrauður á veitingastöðum vegna þess að ég hef pantað of sterkann mat. Grét eins og lítið barn, þvi réttur sem ég pantaði var með miklu chillí og því vel sterkur. Ég gæti talið upp fullt af dæmum sem ég hef lennt í, þar sem ég hef krept hnefann af bræði yfir því að vera ekki orðinn sleipari í tungumálinu. Að sjálfsögðu er ég að mörgu leiti bara annars flokks meðan maður getur ekki tjáð sig. En ég hef þó verið að reyna og maður hefur hitt fullt af falöngum sem geta lært málið. Maður þekkir þessa tilfinningu að þegar maður getur gert sig skiljanlegan á framadi tungumáli, þá verður miklu skemmtilegra að vera í landinu. Ég veit það bara að þegar maður fór að geta gert sig skiljanlegan á spænsku á ferðalögum þá varð allt svo miklu einfaldara. Einnig hlýtur það að vera nauðsynlegt að vilja kynnast fólkinu í landinu. Að sjálfsögðu rottar maður sig með sínu fólki, þegar maður er staddur í ókunnu landi, en ég fullyrði að allir hafa löngun til að falla inn í hópinn hvar sem þeir eru staddir í veröldinni. Einu rökin sem ég sé fyrir því að einhver útlendingur á Íslandi vilji ekki læra íslensku er stoltið. Stoltið að viðurkenna ekki að tungumálið er of erfitt og því setur fólk upp þessa grímu.

Nong Beng & Nong Bach

Þau systkyni litla Beng og litli Bach eru börnin hans Nai, en Nai þessi er bróðir Deng og því eru krakkarnir og Sigurður Rúnar systkynabörn. Þau eru auðvitað komin af venjulegu alþýðufólki, en þau eru ættuð frá Laos að öllum líkindum í báðar ættir, en meira og minna allt fólk hér um slóðir hafa tengls þangað, þó ekki væri nema fyrir tungumálið sem hefur lifað með fólkinu hér. Þetta er tungmálið lao, sem er ekki talið thailensk málýska, heldur er þetta líkara tungumálinu sem er talað í Laos, en hinum megin landamærana í Laos hafa þeir sérstakt ritmál, en tælandsmegin er tungumálið hins vegar tungumál án ritmáls, en ríkismálið thailenska er kennd í skólum, hljómar í sjónvarpi og dægurtextum. Unga fólkið lærir tungmál forfeðrana og læra því að hlusta á mömmu og pabba tala lao. En ef tungmál eiga að lifa verða að vera bókmenntir, tónlist og auðvitað ritmál. Það virðist ekki vera og því mun þessi málýska með tímanum þurkast út. Það er allavegana mín skoðun. Þessi litlu börn heyra því foreldra sína og afa og ömmu tala á lao, en svara oftast á móti á tailensku.
En aftur að Beng og Bach. Þau eru auðvitað bara venjulegir krakkar, en ólíkt frændfólki sínu, eins og t.d fjölskylda Muud, þá hafa foreldrar þeirra komsit í góðar álnir. Faðir þeirra Nai hóf ungur að læra tölvutækni og náði fljótt mjög góðum tökum á greininni. Hann er nokkurs konar Friðrik Skúlason þeirra í Wangsaphung og lang virtasti tölvukarlinn hér um slóðir. Litla fyrirtækið sem hann stofnaði fyrir tæplega tíu árum hefur vaxið og dafnað og hann hefur jafnframt haft tugi manna í vinnu hjá sér í gegnum árin. Hann á meðal annars tvö góða bíla (sem er óvenjulegt hér um slóðir), stórt húsnæði og nokkrar landareignir. M.a er hann að byggja sumarvillu á "fjölskyldureitnum", en nokkrir fjölskyldumeðlimir eiga nú jarðir í nágrenni við hvort annað í újaðri bæjarins. Þau systkyni hafa því ekki þurft að lýða neinn skort hér og því líkjast þau meira jafnöldrum sínum heima á Íslandi, sem fá oftast allt sem þau biðja um. Þau eru því kannski pínulitlar dekurrófur, en Beng hefur meira alist upp hjá ömmu sinni og afa, meðan strákurinn hefur verið meira hjá mömmu sinni. Beng hefur verið eftirlætið hin síðustu ár, en hún var samt mjög spennt að hitta Sigga Tiger. Bach vissi minna um hann m.a spurði hann hvort barnið væri strákur eða stelpa þegar hann hitti hann í fyrsta skipti. Svo fá krakkarnir alltaf nóg að borða, sérstaklega Beng sem er að borða allan daginn og amma hennar er mjög dugleg að stinga upp í hana góðum bita. Bach er hins vegar nýbyrjaður að læra að hjóla og datt á hausinn, eins og sjá má á mynd. Sem betur fer meiddi hann sig ekki mikið, en er allur hruflaður í framan.

Sunday, November 12, 2006

Ertu rasisti, kjósum "Frálslynda"

1) ...Þú tekur það nærri þér að strætóbílstjórinn sem keyrir þig sé grautfúlt pólskt sauðnaut en ekki grautfúlt íslenskt sauðnaut eins og þú átt að venjast.

2) ...Þú röflar, með fullan gúlann af Dominos pizzu, um að útlendingar eigi að aðlagast íslenskri menningu eða drulla sér heim milli þess sem þú rotnar að innan fyrir framan nýjasta ameríska raunveruleikaþáttinn í sjónvarpinu.

3) ...Þú finnur hjá þér þörf til að tjá þig á internetinu um að "Údlendingar eygi að læra ísslensku eða þeir verðy sentir heim með firstu vél!"

4) ...Þú örvæntir yfir möguleikanum á því að innflytjandi gæti hugsanlega unnið sér inn rétt á bótum úr íslenska almannatryggingakerfinu með tíð og tíma, en fagnar barnabótunum ákaft hver mánaðarmót með hinum bótaþegunum á barnalandi.

5) ...Þú segist hafa samúð með öllu fátæka fólkinu úti í heimi en brjálast þegar það vill koma til Íslands til að vinna sér inn pening svo það hætti að vera fátækt.

6) ...Þér finnst Magnús Þór Hafsteinsson allt í einu ekki heimskur lengur eftir að hann fór að tala gegn útlendingum og ætlar að kjósa frjálslynda flokkinn eftir að hann fór að spúa hræðsluáróðri um útlendinga.

7) ...Þú ert gervifélagshyggjumanneskja hefur miklar áhyggjur af því að flæði útlendinga til landsins rýri kjör láglaunaðra Íslendinga á meðan þér er augljóslega skítsama um kjör fátækra útlendinga sem vilja koma hingað til að fá betri laun en í sínu heimalandi.

8) ...þú kvartar yfir því að allir séu alltaf að kalla þig rasista þegar þér finnst þú bara vera að "horfa raunsæum augum á málin".

9) ...þú finnur til óstjórnlegrar bræði þegar þú heyrir um að útlendingur hafi nauðgað konu, á meðan tíðar fréttir af afrekum alíslenskra nauðgara fara að mestu framhjá þér án þess að valda þér teljanlegu hugarangri.

10) ...þú tjáir skoðanir þínar á málefnum útlendinga í vinsælum sjónvarpsþætti og annar hver rasistaskíthæll á landinu kommentar á heimasíðunni þinni og lýsir yfir eindregnum stuðningi við málflutninginn.

Saturday, November 11, 2006

Lífsbaráttan

Hann Muud frændi er bara venjulegur alþýðustrákur og af fátæku foreldri kominn. Muud varð svo heppinn að hann fékk verkamannavinnu í Taiwan. En Taiwan er auðvitað "hluti" af Kína og því í órafjarlægð frá Thailandi. Muud fékk tveggja ára vísa til Taiwan og þetta var auðvitað talinn mikill happafengur fyrir fjölskylduna, því Muud fengi eitthvað um 15.000 bath (30.000 kr) í mánaðarlaun. Til að liðka fyrir seldi fjölskylda hans húsið sitt og fór í fátæklegri eign til að Muud gæti látið drauminn rætast og komið heim að tveim árum liðnum sterkefnaður. Hann kom svo heim nýlega, en hafði ekki eitt bath með sér eftir tveggja ára þrælkun fjarri heimalandinu. Muud hafði ekki lagt mikið fyrir heldur farið að drekka ótæpilega, en wiskey í Taiwan er víst rándýrt eins og á Íslandi. Muud er nú kominn heim í foreldrahúsin, en hann var á tímabili talinn af í Taiwan, þar sem ekkert hafði til hans spurt lengi. Foreldrar hans hafa unnið við það sem til fellur, en bróðir hans hefur verið fatlaður frá unga aldri og ekki getað unnið. Hann fær þó um 20 bath (40 kr) á dag fyrir að gæta nautgripa og er alsæll með það, en venjuleg laun fyrir svoleiðis er um 200-300 bath á dag. En hann fær þó 600 bath á mánuði í örorkustyrk, en það má víst teljast gott að fá eitthvað yfirhöfuð, því hér er ekkert skandinavískt velferðarkerfi. Sonur Muud býr líka á heimilinu, en hann varð eftir hjá afa og ömmu meðan Muud var í Taiwan. Systir Muud býr hins vegar í Bangkok og starfar við verslunarstörf með um 6000 bath (12.000 kr) á mánuði. Ég spyr bara hvað eru Íslendingar eiginlega alltaf að kvarta?

Auðunn heimsmeistari

Auðunn Jónsson varð í dag heimsmeistari í kraftlyftingum. Mótið var haldið í fegursta smábæ heimsins Stavangri og keppti Auðunn í 125 kg flokki. Auðunn er búinn að vera einn af sterkustu mönnum heims í áratug og núna var komið að einhverskonar lokauppgjöri. Hann gaf það óljóst í skyn að þeta yrði hans síðasta mót, enda er hann lengi búinn að stenda í eldlínunni. Oft hefur hann staðið á palli á stórmótum, en núna varð þetta að veruleika. Náfrændi hans Guðni Sigurjónsson varð líka heimsmeistsari í 110 kg fyrir rúmlega áratug, þannig að sterkir eru þeir frændurnir. Ég fylgdist auðvitað spenntur með fréttunum, því ég var orðinn þreyttur á biðinni líka. Ég gróf upp mynd sem ég lét taka af okkur meisturunum um árið. En núna erum við báðir sannir meistarar. Al-heimsmeistarinn í Víkingaskák og heimsmeistarinn í kraftlyftingum.

Friday, November 10, 2006

Styttast

Núna ferðin að styttast í annan endan, því alltaf bætist einn dagur enn í sarpinn. Ég hef oft sagt það áður að annan hvern dag er ég að fíla mig vel hérna, en hinn daginn er ég að telja niður dagana. Þetta hefur að mestu verið eitt ævintýri, en mjög alvarlegt slys í vikunni kom okkur öllum í mikið uppnám, en keyrt var á frænda á mótuhjóli, en slysið gerðist þegar frændi var að fara yfir á grænu ljósi, en grunlaus um að úr hinni áttinni kom sjúkrabíll á fullu spani sem auðvitað virti engar umferðarreglur. Ekki er víst að þeir hafi verið með sírennur eða blikkandi ljós og það segir sig sjálft að það er mikil gæfa að ekki fór verr, en drengurinn sem nýlega átti afmæli lærbrotnaði illa og verður marga mánuði að jafna sig. Fyrst fór hann á almenningssjúkrahús, en síðan á einkasjúkrahús, en á þessum stofnunum er mikill munur og mættum við Íslendingar þakka fyrir að eiga svona góða heilbrigðisþjónustu, en í Thailandi er ekkert ókeypis þegar kemur að læknisþjónustu. Því miður gat geðsjúkraliðinn ekki komið að miklum notum í slysahjúkrun. En ég verð að taka meiri slysa og skyndihjálp áður en ég útskrifast í vor. Það verður að segjast að skellinöðrukaup eru ekki lengur á dáskránni hjá mér, enda á ég hérna ágætibíl. Deng var svo vitlaus að giftast mér, þannig að hér á ég ágætis pallbíl og "einbýlishús", þar sem rekin er lítil kjörbúð og svo á hún ágætis jörð ekki langt frá. Og við erum líka að skoða hérna jarðir, fyrir nýju villuna. Einnig er ég með gamalt hús í sigtinu, en þetta skýrist vonandi á næstu dögum. Svo er ekki ólíklegt að maður verði meira og minna á þessu nýja sveitahóteli, sem kínverjinn lét byggja. En helvítis maðurinn hefur komst að því að ég ætlaði byggja svona sveitahótel og stal hugmyndinni. Ég get ekki verið að erfa það við hann, því hann er búinn að leggja mikið af seðlum í þetta. Sumir segja að hann sé að koma sér undan því að greiða skatt í Bangkok, en það má vel vera. Svo má ég ekki gleyma einu. Á laugardögum er alltaf afmæli hjá Sigga Rúnari, en Thailendingar kalla hann alltaf Tiger, enda er mikil hefði fyrir stuttum gælunöfnum hér. En áður en hann var skírður var ég að horfa á þátt um golfstjörnuna Tiger Wood. Ég sat eiginlega dolfallin yfir þáttunum og yfir þeim gífurlegu hæfileikum sem maðurinn er búinn. Svo er hann líka blandaður, því móðir hans er tælensk. Ég stakk upp á því að við kölluðum hann þessu nafni í upphafi og það lak víst strax til ættingjana hinum megin á hnettinum, sem nú geta ekki kallað hann annað. Sigurður Rúnar Puangphila "Tiger" er víst 19. vikna í dag. Er eiginlega ekki viss lengur, þarf að kíkja á þetta betur. Það skiptir ekki öllu máli, því hér hefur verið að mestu stanslaust afmæli.

Sundlaugin í bakgarðinum

Til þess að komast í alvöru sólarlandastemmingu, þá hef ég þurft að keyra 20 km til að komast í sund og lyftingar. Það er ég að tala um "stórborgina" Loei. En í Wansaphung er enginn sundlaug, eins og í Vík í Mýrdal. Síðan gerist það að við finnum eiginlega sundlaug í bakgarðinum, því næstum því í göngufæri við heimili systur hennar, þar sem við höfum oftast búið er sundlaug. Eiginlega risasundlaug! Auðvitað gapti mðaur af undrun og pínulitlu svekkelsi, því maður hafði keyrt þessa 40 km oft á viku til að fá smá tilbreytingu. Svo er þarna komin líka flott íbúðarhótel á sama stað, en mér hafði ekki litist á hótelin í sveitinni. Reyndar er bara 5. mánuðir síðan þessi starfsemi hófst, þannig að skiljanlega vissi enginn okkar af þessu. Næst getur maður bara fengið sér göngutúr í sundið! En eftir stendur að það var einhver moldríkur kínverji sem stal viðskiptahugmynd minni. Ég tók strax eftir því fyrir nokkrum árum að það vantaði svona Resort þar með huggulegum íbúðum og góðri loftkælingu. Á friðsælum stað, með stórri og góðri sundlaug. En síðan er þessi kínverji búinn að starta þessu. Hann býr í Bangkok og hefur efnast þar vel á viðskiptum. Hann er giftur konu úr þessu héraði og hefur ákveðið að dæla peningunum sínum í þetta. En eitt veit ég að þarna er gott að vera og þarna mun ég beina gestum mínum frá Íslandi.
Sundlaugin í bakgarðinum

Falang

Ekki þarf maður að vera lengi hérna í Thai til að greina eitt orð. Það er orðið falang (farang), sem maður heyrir miskunarlaust þegar maður er staddur einhverstaðar í kringum innfædda. Ég hafði nú reyndar lesið um þetta, en var bent á þetta orð sem glymur alltaf í hausnum. Falang þýðir einfaldlega útlendingur og það orð nota þeir um fólk sem er oftast ljóst á hörund. Þeir hafa víst annað orð yfir þeldökka frá m.a frá mínum heimshluta, en annars er þetta orð alltaf notað. Þegar ég svo birtist á svæðinu, þá greini ég alltaf orðið hjá fólkinu og þá skiptir engu máli hvort viðkomandi er að tala Laó (málýskan sem er töluð þarna, mjög skilt tungumálinu í Laos), eða hreina thailensku, sem yngra fólkið lærir. Núna er maður á þannig stað, þar sem ljóshærðir laglegir menn eins og ég eru mjög fátíðir. Hvert sem ég fer er fólk að snúa sig úr hálsliðnum þegar það sér víkinginn frá Íslandi og til þess að valda ekki of mikilli röskun á bæjarlífinu, þá er ég ekki mikið á ferli hérna í dagsbirtu. Við vitum að heilu fjölskyldurnar setjast upp á litla skellinöðrur og algengt er að sjá fjögur til fimm stykki á einu hjóli og stundum kornabörn. Ég vil alls ekki bera ábyrgð á því að ökumaður bifhjólsins fari að horfa og mikið á mig, með lítið kríli á bakinu, þannig að ég vil ekki þurfa að valda umferðaróhöppum. Í bænum Loei sem er í 20 km fjarlægð eru hins vegar fleirri útlendingar eða Farlang eins og ég vil núna kalla þá. Reyndar er ég ekki það athyglissjúkur að mér líki þetta, en þetta venst samt furðu vel. Annars búa hérna í þorpinu fimm íslenskir ríksborgarar, þs ÉG, Siggi, Deng, Óli-Thai, Nuu og Nikk. Ekki veit ég um fleirri, en samt gætu þeir leynst víðar. Í öllu Loei héraðinu er mér sagt að búi um 400 Falangar. Þá er verið að tala um lengri dvöl, en síðan er auðvitað hellingur af fólki á túristavísa, eða kemur hérna mjög reglulega. Ég tók eftir einu um daginn, því að alþjóðlegu skákstig mín myndu nægja til að ég kæmist í Ólympíulið þeirra Thailendinga í skák. Það væri auðvitað draumur, en hver veit nema þeir myndu samþykkja Farlang eins og mig, ef ég færi að æfa mig eitthvað aftur af viti. Annars eru milljónir af Farlangum í öllu landinu og á Pattayasvæðinu eru sennilega tugir Íslendinga. Þangað fórum við fyrstu vikuna til að aðlagast og fórum beint á uppáhaldshótelið mitt þar. Þar sá ég tvífara eins sem ég kannaðist við á Íslandi. Ótrúlegt því ég hafði nýlega verið að spjalla við þennan mann á Íslandi og þá sérstaklega um Thailand. Við komust að því að við hefðum báðir áhuga á landinu og hann var mjög viljugur að miðla sínum upplýsingum um land og þjóð, en þarna var tvífari hans ljóslifandi kominn. Gaman að þessu, því þarna erum við Englar, Saxar, Keltar og víkingar, en samt erum við alveg eins. Hvernig er þetta hægt að DNA geti raðst svona upp að við sjáum tvífara út um allt. Þegar ég sá þennan tvífara í þriðja sinn áttaði ég mig á að þetta var enginn tvífari, heldur var þetta Thailandsvinurinn frá Íslandi. Samt fáránlegt að vera að spjalla við einhvern fróðan Thailandsvin á Íslandi og komast svo að því að við værum á sama hóteli hinum megin á hnettinum, rúmlega viku síðar. Ég ákvað því að hringja í hann, því ég komst að því að hann bjó á næstu hæð, en hann vildi ekkert kannast við mig í fyrstu, en síðan mundi ég að hann hafði auðvitað öðrum hnöppum að hneppa. Hann var ekki maður einsamall í lyftunni nokkrum mínútum áður. Síðan mundi ég skyndilega að hann hafði sérstaklega tekið fram í spjalli okkar að hann forðaðist að hitta Íslendinga í útlöndum. Ég hef sennilega verið Íslendingur, en ekki kunningi. Annars hitti ég ekki fleirri Falanga eftir þetta á Pattaya því við fórum eldsnemma næsta morgun út á flugvöll til að Siggi Rúnar gæti hitt fólkið sitt í sveitinni.

Saturday, November 04, 2006

Einbýlishúsið

Seth er kominn heim úr klaustrinu og hefur nú flutt aftur inn í húsið sitt á lóðinni sem Deng á. Þar ætlum við að byggja einbýlishúsið, en ekki er endanlega ákveðið hversu stórt við ætlum að hafa það. Þetta verður glæsilegt óðalsetur, ekkert ósvipað og systir hennar byggði ekki langt frá. Húsið á að kosta þetta frá 500.000-1.000.000 bath eða um 1-2 miljónir íslenskar. Ekki mikið fyrir fólk sem á þriggja herbergja íbúð í Reykjavík. Áhugasamir geta tekið þátt ævintýrinu með því að leggja inn á bankareikning hjá Glitni, sem er í eigu undirritaðs.
Heima hjá Seth I

Wednesday, November 01, 2006

Of fá lóð!

Í afplánun

Skrítið að vera svona í sveitinni. Annan hvern dag íhugar maður hvernig maður geti sest hérna að. Losnað við íslenskt samfélag um hríð og komið sér hérna fyrir. Að sjálfsögðu þyrfti maður að hafa fastar tekjur að heiman, (sem ég hef núna en tímabundið) og þegar því er náð, þá yrði ekkert því til fyrirstöðu að setjast hérna að. Auðvitað yrði smá möndl að fá að dvelja í landinu. Það þyrfti að framlengja dvalarleyfið reglulega. T.d með því að fara yfir í næsta land, td til Laosar, sem er ekki svo langt frá, til að fá stimplun í vegabréfið. Margir Íslendingar hafa gert þetta mánuðum og árum saman, þar sem þeir eru að reka einhvern "bissness" niðrá Pattaya. Núna hefur maður allt til alls. Er kominn með kapalkerfi í húsið og því get ég náð um 30 stöðvum og m.a horft á evrópskan fótbolta um helgar og í miðri viku. Ég er komin með netið, þs sítengingu og get því verið í stöðuga sambandi. Verðlagið er gott og veðrið alltaf. Klæðist alltaf sumarlega og fer m.a aldrei í lokaða skó eða í sokka nema tilneiddur. Hinn daginn fæ ég svakalega heimþrá, maturinn er ekki mér að skapi, húsnæðið er ekki boðlegt og mikið af maurum, moskító og alls konar veseni. Síðan vill maður vera í eigin húsnæði og þurfa ekki vera inná öðru fólki í of langan tíma. Þegar ég er í þessum hugleiðingum, þá tel ég niður dagana svona svipað og maður væri í afplánun.