Wednesday, August 30, 2006

Hver er

Eftir að hafa farið uppað Gljúfrasteini og tínt nokkra poka af berjum, þá kíktum við að Kistufelli við rætur Esju, en á leiðinni heim kíkti ég aðeins í Orkuveituhöllina en þar fer fram Skákþing Íslands, en í landsliðsflokki tefla þeir Héðinn Steingrímsson og Hannes Hlífar um hver sé sterkasti skákmaður Íslendinga árið 2006. Á sama stað fer líka fram keppni í Áskorendaflokki, en þar rakst ég á gamlan lyftingamann Þorstein Leifsson sem er orðinn býsna sleipur skákmaður. Ríkharður Sveinsson benti mér á að þarna væri gamall lyftingamaður á ferð og ég sagði eitthvað á þá leiða að Steini væri á góðri leið með að verða sterkasti skákmaður Íslands og væri þar með að taka titilinn af Kára Elísyni. Steini er allavega sá virki skákmaður, sem hefur lyft mest yfir haus í ólympískum lyftingum, eitthvað í kringum 180 kg. Kári Elíson er hins vegar sá skákmaður sem hefur lyft mestu í kraftlyftingum (af þeim sem hafa náð yfir 2000 stig), en Baldivin Skúlason er hinsvegar sá bréfskákmaður sem hefur lyft mestu í kraftlyftingum eða um og yfir 800 kg í samanlögðu, en Baldvin varð fyrsti maðurinn á Íslandi til að lyfta 250 kg í bekkpressu. Baldvin þessi er mjög öflugur (stigahár) bréfskákmaður. Guðmundur Sigurðsson heimsmeistari öldunga í lyftingum var líka mjög virkur skákmaður, en hann tefldi mikið á netinu og gerir eflaust ennþá. Sverrir Sigurðsson æfingafélagi minn í gym 80 teflir núna glimrandi vel í áskorendaflokki, en hann er með efstu mönnum í mótinu og er líka að lyfta á fullu og gæti nálgast þristinn í réttstöðulyftu á næstu mánuðum. Hann telst að mínu áliti vera virkur skákmaður, þs teflir á fullu í alvöru mótum, sem er ekki hægt að segja um mig eða Kára Elíson, því við erum báðir hættir að tefla skák yfir borðinu. Jóhann Ingvarsson úr TK hefur líka keppt í kraftlyftingum með góðum árangri. Sveinn Ingi Sveinsson var mjög öflugur í bekkressu hér áður fyrr og keppti líka í lyftingum. Ríkharður bróðir hans var líka Íslandsmeitari í snörun unglinga með um 50 kíló fyrir um 20. árum. Fleirri sveppi má eflaust tína til. En hvað er það að vera skákmaður? Er það nóg að kunna mannganginn til að geta kallað sig skákmann? Það er auðvitað skilgreiningaratriði. Alveg eins og í lyftingunum, þar sem talað er um tilveruréttinn. Tilverutrétturinn í bekkpressu er t.d 150 kg, en annars telst maður víst ekki vera bekkpressari. Þeir sem lyfta t.d minna en 100 kg teljast ekki til manna eða í mesta lagi GAY. Sama með hugtakið skákmaður. Tilveruréttur skákmannsins gæti verið að ná 2000 elóstigum. Hins vegar var ég spurður af fyrrnefndum Ríkharði af hverju ég hefði ekki verið með í mótinu til að komast AFTUR í landsliðsflokkinn. Ríkharður var með þessu að minna mig á (á sinn kvikindislega hátt) að ég hefði eitt sinn tekið þátt í landsliðflokki, en þar endaði ég bara með einn vinning, en ég hafði unnið mér rétt til að tefla í landsliðflokki árið áður. En mitt í þessum fúlu minningum um mótið á Akureyri 1987 kviknaði á perunni hjá mér, því eitt er víst að ég er sennilega sá stekasti sem hefur keppt í landsliðsflokki frá því byrjað var að keppa í honum snemma á síðustu öld. Ég er reyndar einnig einn af þeim stigalægstu (lélegustu) sem hafa keppt í lansliðflokki, en ég var þá með 1990 elóstig. Þar með er ein skilgreining á sterkum skákmanni kominn fram. Sterkur íslenskur skákmaður er sá sem hefur keppt eða unnið sér rétt til að tefla í landsliðflokki á Skákþingi Íslands. Þegar bókin "Íslenskir skákmeistarar" kom út fyrir um tuttugu árum átti einungis að fjalla um þá skákmenn sem hefðu teflt í landliðsflokki einhverntíman. Það var eina leið höfundanna til að ákvarða hveriir ættu heima í félagatali skákmanna. Þessi bókaflokkur varð reyndar aldrei að veruleika, því einungis kom út þetta eina hefti því miður. Ekki man ég hvað bækurnar áttu að vera margar, en ég átti klárlega að vera í riti tvö vegna "framistöðu" minnar árið 1987. Ég held að ég geti fullyrt að ég sé sá sterkasti sem teflt hefur í landsliðflokki, m.a með tölurnar 670 kg í samanlögðu í kraftlyftingum og 130 kg í janfhendingu og 100 kg í snörun. Og hananú-hananú. Þá má reyndar lengi deila um hvað það er að vera sterkur, en kraftlyftingar eru ein besta aðferð til að skera úr um styrk manna. En geta menn þá fallist á það að Steini Leifs geti gert tilkall til "titilsins" sterkasti "virki" skákmaður Íslands eða þarf hann að ná yfir 2000 stigum til að geta kallað sig það? Kári Elíson var á sínum tíma á toppnum í kraftlyftingum á sama tíma og hann varð Akureyrarmeistari í skák. Mig minnir að einhver skákblaðamaður hafi veitt honum titilinn sterkasti skákmaður Íslands á þeim tíma. Það heyrir samt til undantekinga að menn geti verið á toppnum í tveim ólíkum íþróttagreinum á sama tíma, því það er næstum ómögulegt.
The image “http://www.gasolinealleyantiques.com/celebrity/images/TV/simpson-chess1.JPG” cannot be displayed, because it contains errors.

Sunday, August 27, 2006

Massaður

Maður verður víst ekki massaður á því að fara í fjallgöngu, berjamó, eða tína kartöflur. Tína kartöflur? Já, ég skrapp upp í Skammadal til að ná mér í kartöflur með Faaborgmeistaranum. Kom síðan heim með lopna putta. Þvílíkur kuldi að skella á, enda haustið á næsta leiti. Túristarnir farnir og krakkarnir eru byrjaðir í skóla. Sumarið er því búið og ég ætla að enda það á morgun með því að tína ber, þs skella mér með fjölskylduni í berjamó áður en blessuð berin frjósa í hel (er ég að verða alger kerling?). Þar með er það endanlega ljóst að þetta ár verður ekkert bætingaár. Ég ætla samt að vera með á Fógetamótinu í bekkpressu í september. Þá tek ég bara heiðuslyftu, sem ég hliðargrein við sjálft mótið. Þeir bestu keppa í bekkpressumótinu sjálfu, en hinir gömu lyfta heiðurslyftu. Maður hefur bara ekki tíma í þetta allt saman. Ég ætla að orða þetta öðruvísi. Þar að segja lífið fyrir og eftir Tiger. Fyrir Tiger átti maður nægan frítíma þrátt fyrir 200% vinnu, en eftir Tiger snýst all um litla karlinn. Hann er líka alveg frábær. Litli Tiger er orðinn mjög massaður og öflugur og minnir mig dálítið á Hulk. Hann gjörsamlega brjálast ef hann fær ekki mjólkina sína.

Saturday, August 26, 2006

Ég er búinn

Ég er búinn að finna smiðinn, sem ætlar að byrja á sumarhöll minni sem verður einhverstaðar á suðvesturhorninu, en ég veit ekki hvar?! Hann sagðist geta byrjað að smíða undirstöðurnar ekki málið. Þessi maður hefur smíðað fyrir mig áður, því hann henti upp heilum millivegg í Mýrinni í denn. Hann var mikil íþróttastjarna hér áður fyrr, en hann náði einmitt að sigra eina grein á ólympíuleikum í Montreal árið 1976 (minnir að það hefðu verið þeir leikar). Sigrað heila grein? Jú hann vann hástökkið (eða var það langstökkið) í sínum riðli í tugþrautakeppnininni, þar sem sjálfur Daily Thomson var meðal keppenda. Thomson vann síðan tugþrautina. Sem sagt, smiðurinn er sá eini Íslendingurinn sem hefur unnið grein á olympíuleikum, en fékk því miður ekkert gull. Ég er nú reyndar viss um að Jón Arnar hafi unnið nokkra undanriðla í sinni tíð í td 100 metrunum, en ef sagan er góð, þá er hún sönn sagði maðurinn einhverntíman. Svo var ég með heimsmeistarann í kraftlyftingum í pípulagnaviðgerðum í fyrra. Það er því ekkert smá iðnaðargengi sem er í símanúmerbók minni, þegar ég byrja að smíða höllina mína. Draumahúsið mitt er einmitt svona fjallakofi, þar sem maður getur aftengt sig frá öllu áreiti "stórborgarinnar". Mikið djöfull er ég annars orðinn þreyttur á Reykjavík. En hér býr mitt fólk og hér er mín vinna, þannig að hér verð ég að dúsa. Ó, Reýkjavík Ó, Reykjavík þú yndislega borg sungu Vonbrigði hérna um árið.

Friday, August 25, 2006

Dalalíf

Svo gerðist það einn daginn að ég heillaðist af sveitinni, en það gerðist eiginlega bara í vetur, þegar við Faaborg fórum að skoða sumarhús við Meðafellsvatn og Elífsdal. Við höfðum ákveðna lóð í huga en klikkuðum illilega á því og draumalóðin seldist. Draumalóðin var kofaskrífli við vatnið og á leigulóð, en síðan gerðist það í sumar að verð á þessum sumarhúsalóðum þaut upp úr öllu valdi. Núna tel ég að það sé kominn tími til að tryggja sig inn í framtíðina. Í ferðinni til Laugavatns í vikunni vorum við að skoða okkur um með sumarhús í huga. Mjög margt kemur til greina, frá hjólhýsahverfinu við Laugavatn til landaspildu við Ytri Rangá. Jafnvel kemur Meðafellsvatn ennþá til greina, en kofaskríflið má ekki vera meira en í rúmlega klukkutíma fjarlægð frá Reykjavík eða ennþá styttra eins og t.d við Kistufell eða bara Hafravatn. Ég féll líka fyrir Apavatni í ferðinni, en þar eru nokkrír bústaðir, en sennilega yrði erfitt að komast að við vatnið, en helst myndi ég vilja vera á þessu svæði td á Þingvallarsvæðinu, Laugavatni, Grímsnesi osf. Ef einhver veit um eitthvað boðlegt á þessu svæði, þá má hann endilega láta okkur Faaborg vita. Hugmyndin er að stofna félag um bústað, td fjórir einstaklingar eða fjölskyldur. Td eru Vilborg og Vikar í svoleiðis félagi um bústað í Húsafelli og hefur þessi búskapur gengið mjög vel til margra ára. Það má líka benda á að ég er í svoleiðis félagi, því mikill fjöldi ættingja minna er í félagi um húsið hans langafa í Aðalvík. Haldnir eru fundir einusinni til tvisvar á ári, þar sem liðið skiptir á milli sín tímanum og hefur það gengið stórvel í þeim dæmum sem ég þekki þ.s í Aðalvík og Húsafelli. Helst hefði maður viljað eiga þetta einn, en þar sem maður er fátækur ríkistarfsmaður, þá verður þetta sennilega að bíða um hríð. En þetta er samt mjög fyndið, því fyrir nokkrum árum fyrirleit maður svona smáborgara sem fóru hverja helgi útúr bænum til að fara upp í sumarbústað í einhver leiðindi eða hokra yfir grilli og sofa
i blautu tjaldi. Ég vildi hins vegar ekki sjá sveitina. Vildi bara eiga hús á Spáni og hvergi vera annars staðar en í hverfi 101 í Reykjavík. En núna er maður orðinn þessi plebbi sem maður áður fyrirleit. Annars var ferðin til Laugavatns vel heppnuð. Við fengum bústað í gegnum klíku á besta stað. Tiger fílaði sig vel að vanda, en ég fékk líka að skreppa í golf í Miðdal þar rétt hjá. Fór líka í fínar fjallgöngur, veiði og svo auðvitað í heita pottinn. Því miður kíktu fáir í heimsókn (vissu ekki af okkur), en Faaborg kíkti nokkra daga m.a til að skoða sveitirnar, en við keyrðum um alla fyrrnefnda staði m.a í Biskupstungur, Hrepp og Skeið og lengst inn í Rangavallasýslu. Og ég kíkti líka á föstudagskvöldið í sumarhús Guðnýjar næturhjúkku við Úlfljótsvatn þar sem deildin mín var að skemmta sér. Reyndar var sá spotti lengri í myrkrinu en ég hélt, en ég stoppaði þar bara í klukkutíma enda liðið komið á herðablöðin og ég sjálfur bílandi. Núna vill maður semsagt eiga annað heimili við vatn eða fjall. Semsagt eiga tvö lítil hús, annað í Reykjavík og hitt útá landi. (Fyrir utan húsin "mín" í Aðalvík og í Norður Thailandi)

Ferðalagið

Í ferðalagið

tannbusti+tannkrem+sjampó
sundskýla
stuttbuxur
nærbuxur x ?
bolir x ?
gleraugu
sólgleraugu
linsur+vökvi
myndavél+hleðsla
videovél+hleðsla
tölva + hleðsa+dvd
harður diskur (auka)
gsm+hleðslutæki
veski+passi+visakort
innanklæðaveski
handklæði
landakort+ferðabók
skór (td spari, íþrótta eða strand)

gleymi ég einhverju?

Auka (innanlands)

veiðistöng+taska
golfsett
fjallgönguskór
útivistaföt

gleymi ég einhverju?

Thursday, August 17, 2006

Vinna

Þetta er auðvitað hörkupúl að flytja, því nú er Cat að flytja sig um yfir á aðra götu. Þá er nauðsynlegt að raða öllu í rétta kassa. Maður þekkir það sjálfur að eiga mikið af allskonar dóti sem safnast hefur upp í gegnum árin. Nú er Magisterinn búinn að slá okkur flestum við því hann er nú kominn í 4. herbergja íbúð með heitkonu sinnu MM, eða Möttu Meiriháttar.

Ísland-Spánn

Það eru heil sjö ár síðan eða í ágúst 1999 sem ég fór í fyrsta skipti (og vonandi ekki það síðasta) á leik á Camp Nou í Barcelona, en þetta var leikur í Super Cup eða meistari meistarana á Spáni. Barcelona vann Valencia 3-2 að mig minnir, en í lokinn fékk Valencia afhent bikarinn því þeir unnu fyrri leikinn og samanlagt. Ég man að ég fór með hollenskum skólafélaga mínum á leikinn því Faaborg hafði takmarkaðan áhuga á þessum smáleik. Við keyptum frekar ódýran miða og lentum því frekar ofarlega í stúkunni, en samt voru þetta ekki ódýrustu miðarnir, því fyrir ofan okkur voru svo brjálaðir stuðningsmenn Valencia. Ég mæli hins vegar með að menn borgi aðeins meira fyrir miðana eða kaupi jafnvel dýrustu miðana, ca 10.000-15.000 (fer eftir stærð leiksins) því flestir koma bara einu sinni á ævinni á þennan völl. Ég man að ég var að segja þessum hollenska félaga mínum frá knattspyrnunni á Íslandi, þegar Kluvert skoraði glæsilegt mark. Að gömlum vana fannst mér eins og ég fengi að sjá endursýningu af markinu, en ég sá það ekki fyrr en mörgum mánuðum seinna á Eurosport. Þetta var stórleikur enda byrjar spænski boltinn vanalega með þessu einvígi. Þetta er sama einvígi og Eiður á að spila á fimtudaginn en þá mætast meistarar Barcelona bikarmeisturunum í Espanol. En hvers vegna lenti vináttulandsleikur Íslands og Spánar tveim dögum áður? Ekki skil ég hvers vegna ekki mátti færa hann til? En ég þekki þetta ekki nógu vel og sennilega má ekki hnika til leikdögum í alþjóðaboltanum. Því verða a.m.k fimm leikmenn sem ekki mæta á völlinn í kvöld, þs fjórir "Spánverjar" og Eiður. En ég skil Eið og Barca vel. Til hvers að sleppa þessum stórleik í Barcelona fyrir vináttuleik, sem á hvort sem er á eftir að skít-tapast. En vonandi fær Eiður að spreyta sig gegn Espanol, því þann leik ætla ég að horfa á, ef allt fer að óskum.
Nei, ég ætla nú samt að vera bjartsýnn og spái jafntefli 1-1 en það kæmi mér ekki áóvart þótt spænska liðið tæki okkur í bakaríið og Fernando Torres skori þrennu.

Sunday, August 13, 2006

Tiger

Veröldin snýst núna um Tiger þessa dagana og því gefst nú lítill tími fyrir einhver áhugamál. Allt snýst núna meira og minna um hans þarfir og nær hann að riðla svefntímanum hjá okkur en ég hélt að ég væri öllu vanur í þeim efnum. Núna þarf maður að skipuleggja tíma sinn eftir hans þörfum, því núna þýðir ekkert egóflipp lengur. Í dag hélt hann upp á sex vikna afmælið sitt og viktaðist nákvæmilega 4,5 kg. Miðað við að vera bara 4.5 er hann alveg ótrúlega öflugur, en hann var bara 2.2 kg þegar hann fæddist. Í dag fór hann í Kolaportið og kíkti á Gay-pride. Hann lét sér þó fátt um finnast og svaf af sér GAY"STEMMINGUNA"

Thursday, August 10, 2006

Veiði

Ég veiddi lítið krílí í Þingvallarvatni núna á Sunnudaginn, þegar við heimsóttum Dr. Frölich (Svein Inga) og fjölskyldu í sumarhöll hans við Þingvelli. Þetta var víst einhver dvegmurta, en annars á ég eftir að stúdera fiskistofninn við vatnið og á örugglega eftir að veiða stærri fiska en þennan dverg. Sparimeistarinn var líka mættur til Þingvalla, þar sem bróðir hans á bústað í nágrenni við Frölich. Spari er reynar meira fyrir annarskonar veiðimennsku, en það er reyndar önnur saga. Ég átti reyndar von á því að veiða nokkra væna silunga, en annars skiptir aflinn engu máli heldur útiveran og náttúran. Núna er maður farinn að dýrka malarvegi, fámennið, sveitasæluna og allt sem henni fylgir, en áður fyrr voru það skemmtanir og djamm. Bara að komast út úr bænum veitir manni ólýsanlega gleði. Ætli maður endi ekki sem afdalabóndi eins og Gísli á Uppsölum. Ég er reyndar að fá upp í kok á "geðveikinni" í þéttbýlinu. Draumurinn væri auðvitað að flytja til Aðalvíkur á Hornströndum með fjölskylduna, þar sem ekki nokkur hræða býr yfir vetrartímann. Frábær hugmynd.

Ég fer í fríið

Þá er maður loksins kominn í langþráð frí. Eiginlega til áramóta, en vonandi fæ ég að gera eitthvað, td. aukavaktir, svarta vinnu eða eitthvað annað til að drýgja tekjurnar. Svo hefur maður verið að lyfta þrisvar í viku í gymminu og kem því ágætlega undan sumri, þótt ég hafi klikkað illilega á 250 kg í deddi, þá veit maður að bekkurinn er á réttri leið. Í fríinu verður þó stunduð hefbundin gamlingjasport, eins og veiði, fjallgöngur og golf.

Thursday, August 03, 2006

Fidel

Fréttir berast nú af því að heilsu félaga Fidel fari hrakandi. Fidel sem hefur ríkt á Cúbu í meira en 40 ár hefur nú látið völdin í hendur bróður sínum tímabundið. Eflaust er hægt að segja margt gott og slæmt um Fidel, en miðað við mannkynssöguna á tuttugustu og tuttugustu og fyrstu öldinni, þá er Fidel ekki verri en hver annar leiðtogi í þessum heimshluta. Sjálfur ólst ég upp við svarthvíta heimsmynd, sem lýsti sér í því að við Íslendingar teldumst til hinna vestrænu ríkja, hinna lýðfrjálsu og fallegu vestulanda, en í austri var einræðisríkið Sovétríkin og leppríki þeirra í Varsjárbandalaginu, plús hin kommaríkin, þar með talin Cúba. Síðan var það þriðji heimurinn, en þau voru hin fátæku lönd heimsins í Afríku og Asíu. En veröldin er ekki svart / hvít, það er næsta víst. Cúba er reyndar það land í rómönsku ameríku, þar sem lífskjör eru einna skárst, glæpir fátíðir, menntunarstig hátt, heilbrigðiskerfi gott og gleði og glaumur ríkir í landinu. Horfið þið bara á nágrannaríkin, td Dómenikanska lýðveldið, Haiti, Mexico, El Salvador osf osf. Hvert einasta þeirra stendur Cúbu langt að baki, þrátt fyrir viðskiptabann Bandaríkjana í fjörtíu ár. Og þrátt fyrir að þetta ríki hafi verið úthrópað sem eitt mesta einræðiríki veraldar, þá er þetta eitt af fáu löndunum í þessum heimshluta þar sem túristar geta um frjálst höfuð strokið. Ekki hefur félagi Fidel farið með stríði á hendur öðrum þjóðum eða drepið saklaus börn í þúsundatali í þágu einhvers málstaðar s.b stríð gegn hryðjuverkum sem Bandaríkjamenn hafa stundað. Tökum annað dæmi. Hvað yrði sagt ef Fidel myndi selja Huga Chavez vopn í tonnatali, til að sá hinn sami gæti murkað lífið úr indjánaættbálkum sem væru með uppsteit. Ef Hugu myndi sprengja upp heilu þorpin og drepa hundruði saklausra barna með cúbönskum vopnum og fjárstyrk yrði allt vitlaust í alþjóðasamfélaginu. Ég vona svo sannarlega að félagi Fidel nái sér að fullu og muni leiða cúbönsku þjóðina meðan hann hefur heilsu og kraft.

Tuesday, August 01, 2006

1. mánaða

Nong Tiger á afmæli í dag og er mánaðargamall. Í tilefni dagsins fær hann sér örugglega volga mjólk og lætur finna fyrir sér. Hann þyngist nú vel, enda liggur mikið á að verða stór. Tiger er nú orðinn heil fjögur kíló. Alger moli eins og Viddi hefði kallað það.

Skatturinn

Forustumenn Sambands ungra sjálfstæðismanna munu sitja inn á skrifstofu Skattstjórans í vikunni og ætla að koma í veg fyrir aðgengi almennings að skattaskrám. En hafa þeir ekkert betra að gera en þetta. Ég meina er þetta svo mikið hjartans mál að koma í veg fyrir þennan sjálfsögða rétt okkar að hnísast um náungann. Þessi ungmenni eru að sjálfsögðu varðhundar fjármagnseigenda. Ég ætla nú samt að koma við þarna eftir helgi og sjá þessar "merku" aðgerðir. Núna get ég ekki lengur njósnað um ættingja mína, eins og einn frænda minn sem býr í 150 milljón króna húsi, eða um pabba eða bróðir hans, já og bræður mömmu. Kannski ég hnísist aðeins í tölurnar hans Sveins kennara eða Kidda Hercules. Eða hvað með gaurinn sem hefur ekki unnið heiðarlega vinnu í 25 ár, en á samt sumarhús á Spáni, sem hann heimsækir nokkrum sinnum á ári með fullt veskið af seðlum. Hvað borgar hann til samfélagsins? Nei, þessar íhaldstruntur ætla að skemma fyrir mér ánægjuni. Nei, aðgengi almennings að álagningaskrám eru auðvitað hugsaðar til þess að almenningur geti látið yfirvöld vita ef eithvað óvenjulegt er á seiði hjá manninum í næsta húsi. Væri ekki frekar nær fyrir þetta unga fólk að mótmæla slátrun Ísraela á saklausu fólki í skjóli Bush. Eða hörmungarnar á Kárahnjúkum, þar sem sökkva á landinu fyrir erlenda auðhringi eða hafa einhverjar hugsjónir til að berjast fyrir. Þetta er nú meiri hugsjónamennirnir. Best að kíkja niðrí skatt á morgun og gera sér upp erindi, td að klára að borga fasteignagjöldin og reyna svo að rífa af þessu liði skattaskrána.