Falang
Ekki þarf maður að vera lengi hérna í Thai til að greina eitt orð. Það er orðið falang (farang), sem maður heyrir miskunarlaust þegar maður er staddur einhverstaðar í kringum innfædda. Ég hafði nú reyndar lesið um þetta, en var bent á þetta orð sem glymur alltaf í hausnum. Falang þýðir einfaldlega útlendingur og það orð nota þeir um fólk sem er oftast ljóst á hörund. Þeir hafa víst annað orð yfir þeldökka frá m.a frá mínum heimshluta, en annars er þetta orð alltaf notað. Þegar ég svo birtist á svæðinu, þá greini ég alltaf orðið hjá fólkinu og þá skiptir engu máli hvort viðkomandi er að tala Laó (málýskan sem er töluð þarna, mjög skilt tungumálinu í Laos), eða hreina thailensku, sem yngra fólkið lærir. Núna er maður á þannig stað, þar sem ljóshærðir laglegir menn eins og ég eru mjög fátíðir. Hvert sem ég fer er fólk að snúa sig úr hálsliðnum þegar það sér víkinginn frá Íslandi og til þess að valda ekki of mikilli röskun á bæjarlífinu, þá er ég ekki mikið á ferli hérna í dagsbirtu. Við vitum að heilu fjölskyldurnar setjast upp á litla skellinöðrur og algengt er að sjá fjögur til fimm stykki á einu hjóli og stundum kornabörn. Ég vil alls ekki bera ábyrgð á því að ökumaður bifhjólsins fari að horfa og mikið á mig, með lítið kríli á bakinu, þannig að ég vil ekki þurfa að valda umferðaróhöppum. Í bænum Loei sem er í 20 km fjarlægð eru hins vegar fleirri útlendingar eða Farlang eins og ég vil núna kalla þá. Reyndar er ég ekki það athyglissjúkur að mér líki þetta, en þetta venst samt furðu vel. Annars búa hérna í þorpinu fimm íslenskir ríksborgarar, þs ÉG, Siggi, Deng, Óli-Thai, Nuu og Nikk. Ekki veit ég um fleirri, en samt gætu þeir leynst víðar. Í öllu Loei héraðinu er mér sagt að búi um 400 Falangar. Þá er verið að tala um lengri dvöl, en síðan er auðvitað hellingur af fólki á túristavísa, eða kemur hérna mjög reglulega. Ég tók eftir einu um daginn, því að alþjóðlegu skákstig mín myndu nægja til að ég kæmist í Ólympíulið þeirra Thailendinga í skák. Það væri auðvitað draumur, en hver veit nema þeir myndu samþykkja Farlang eins og mig, ef ég færi að æfa mig eitthvað aftur af viti. Annars eru milljónir af Farlangum í öllu landinu og á Pattayasvæðinu eru sennilega tugir Íslendinga. Þangað fórum við fyrstu vikuna til að aðlagast og fórum beint á uppáhaldshótelið mitt þar. Þar sá ég tvífara eins sem ég kannaðist við á Íslandi. Ótrúlegt því ég hafði nýlega verið að spjalla við þennan mann á Íslandi og þá sérstaklega um Thailand. Við komust að því að við hefðum báðir áhuga á landinu og hann var mjög viljugur að miðla sínum upplýsingum um land og þjóð, en þarna var tvífari hans ljóslifandi kominn. Gaman að þessu, því þarna erum við Englar, Saxar, Keltar og víkingar, en samt erum við alveg eins. Hvernig er þetta hægt að DNA geti raðst svona upp að við sjáum tvífara út um allt. Þegar ég sá þennan tvífara í þriðja sinn áttaði ég mig á að þetta var enginn tvífari, heldur var þetta Thailandsvinurinn frá Íslandi. Samt fáránlegt að vera að spjalla við einhvern fróðan Thailandsvin á Íslandi og komast svo að því að við værum á sama hóteli hinum megin á hnettinum, rúmlega viku síðar. Ég ákvað því að hringja í hann, því ég komst að því að hann bjó á næstu hæð, en hann vildi ekkert kannast við mig í fyrstu, en síðan mundi ég að hann hafði auðvitað öðrum hnöppum að hneppa. Hann var ekki maður einsamall í lyftunni nokkrum mínútum áður. Síðan mundi ég skyndilega að hann hafði sérstaklega tekið fram í spjalli okkar að hann forðaðist að hitta Íslendinga í útlöndum. Ég hef sennilega verið Íslendingur, en ekki kunningi. Annars hitti ég ekki fleirri Falanga eftir þetta á Pattaya því við fórum eldsnemma næsta morgun út á flugvöll til að Siggi Rúnar gæti hitt fólkið sitt í sveitinni.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home