WangSaphung
Ég bý í litlu þorpi sem heitir Wangsaphung, en engin hérna virðist vita hversu margir búa hérna. Ef ég á að setja þennan bæ í íslenskt samhengi þá gæti hann verið á stærð við Dalvík. Í um 20. km fjarlægð frá bænum er svo Loei, en hann er sirka á stærð við Akureyri. Þangað sækir maður eiginlega alla afþreyingu, m.a er þarna gay-gymmið, góð hótel, fínir veitingastaðir og mannlíf. Enn lengra burtu er svo stórborgir eins og Khon Kaen, Nong Khai og Udon Thani. Við fórum einmitt í verslunarferð til Udon Thani í dag, en þar fékk ég algert kaupæði og keypti mér m.a litla myndavél og hljómflutningstæki. Annars er Udon Thani á stærð við Reykjavík, en með öllum úthverfum er hún örugglega mun fjölmennari. Wangsaphung er eins og áður sagði sennilega á stærð við Dalvík og í raun virkar bærinn á mig eins og frumskógur, sem er búið að leggja veg í gegnum þvers og krus. Í miðbænum sjálfum má m.a finna "eyjar", þar sem eru stór ónýtt svæði, en við búum hins vegar í "101 svæðinu" þeirra, þar sem Deng lét byggja lítið einbýlishús, en foreldrar hennar reka þar nú litla kjörbúð. Ég hef meira að segja þurft að afgreiða litla stráka um sælgæti, en hef ekki tekið nein laun fyrir, enda myndi ég eflaust missa fæðingarorlofið, ef það sannaðist á mig. Eins gott að fæðingarorlofssjóður fari ekki að skipta sér af þessari "vinnu", því þá verð ég alveg tekjulaus. Wangsaphung er að mörgu leiti yndislegur lítill bær og ekkert um að vera nema einhverjir útimarkaðir, sem selja hrísgrjón. Allir eru að bjarga sér með því að vera í einhverju harki. Mjög svo drungalegt er þarna um að litast þegar fer að skyggja á kvöldin, en foreldrar hennar hafa líka aðsetur á stóra óðalssetrinu, sem er í um 10 mínútna akstursfjarlægð frá miðbænum, en þar er í raun alvöru sveitastemming á kvöldin, því þar er hægt að rekast á spordreka, slöngur og ýmislegt annað miður fallegt sem fylgir oft "sveitasælunni". Annars var nú ástæða fyrir því að ég fékk mér þessa myndavél, því ég var svo upp með mér af nýja teljaranum í blogginu, sem sýnir að menn frá hinum ýmsu löndum eru að detta inn, því á örfáum dögum hafa komið gestir frá sextán löndum inn á síðuna, m.a frá Singapore, Rúmeníu, Peru, Makedóníu, Ástralíu, Austuríki, Spáni osf. Þessvegna keypti ég myndavélina til að geta haldið áfram að gera litlar videoklippur fyrir þessa "aðdáendur" mína. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá götuna "mína", en þar fór einmitt allt á flot um daginn, vegna afleiðinga flóðanna, en víða í landinu er ennþá mikið hættuástand, þótt rigningatímabilinu hérna sé formlega lokið og besti árstíminn genginn í garð. Fínt að vera hérna í sveitinni. Eina fólkið sem hefur verið að tala um valdarán og póitík hafa verið Íslendingar sem ég hef hitt á netinu. Hér hefur hefur hinsvegar ekki nokkur maður minnst orði pólitík eða stjórnmálin í Bangkok. Það væri þó fínt að eyða einni nótt í Bangkok eftir alla "sveitasæluna".
0 Comments:
Post a Comment
<< Home