Einbýlishúsið III
Í raun hefði alveg verslunarhúsnæðið í miðbænum dugað sem sumarhús, því það er alveg nógu stórt. Það er meðal annars hægt að gera flotta tveggjaberbergja íbúð eða stóra stúdíóíbúð í þessu húsnæði. Ég tók því miður ekki þátt í að fjármagna verslunarhúsnæðið, enda kostaði það svo sem ekki mikið í upphafi, en kannski maður hefði viljað skoða þann möguleika að byggja ofaná húsið, til að fá stærra húsnæði. Það er að sjálfsögðu ennþá hægt og jafnvel þriðja hæðina, sem yrði þá svona útsýnissvalir. Allt kostar þetta, en ekki mikið á íslenskan mælikvarða nóta bene. Fljótlega eftir að húsið var byggt 2005, þá flutti bróðir hennar þjónninn frá Pattaya norður til Wangsapung með fjölskyldu sína og byrjaði bissnes í húsnæðinu, en síðan flutti hann yfir götuna í hentugra húsnæði. Þannig að í fyrstu skipti sem ég kom í húsið vorum við fimm að kúldrast þarna. Næst þegar ég kom í húsið stoppaði ég bara nokkra daga, en í þriðja skiptið sem ég kom núna höfðu foreldrar hennar hafið þarna sjoppurekstur. Þannig að núna vorum við aftur að kúldrast fimm í húsinu, sem var auðvitað hið besta mál, því hér úti hjálpast fólk að eins og hægt er. Þannig var það líka á Íslandi, en samt er fólk þar almennt mjög nískt á húsin sín. Þau eru heilög og sem dæmi þá spurði ég móður mína eitt sinn hvort hún gæti ekki prófað að biðja bræður sína um eina helgi í sumarbústað þeirra, en þeir eiga allir fjórir fína bústaði sem eru í þægilegri fjalægð frá Reykjavík. Móðir mín á ekki neinn ennþá, en hefur lengi dreymt um að eignast einn slíkan. Sjálfur hef ég reynt að fá hana í félag um sumarhús, en hún er ennþá að hugsa málið. En svarið við spurningu minni var þvert nei. Hún myndi sko ekki þora að spyrja bræður sína um að fá að dvelja í sumarhúsi þeirra, því það væri ekki séns. Samt er mjög gott samband milli þeirra systkina, en svona er þetta bara. En í Tailandi yrði örugglega fussað og svejað ef þeir fréttu hversu Íslendingar væru eigingjarnir, því hér hjálpast allir að sem er aðdáunarvert. En það var samt þarna í þrengslunum sem ég var farinn að leiða hugann að fasteignum, annað hvort að stækka verslunarhúsnæðið, byggja nýtt td á stóra landinu, eða kaupa gamalt. Ég er nú bara þannig að maður vill helst hafa allt prívat og þegar maður fer í frí þá vill maður hafa það svipað eða betra en heima. En í síðustu viku varð smá breyting því ein af tölvubúðum fjölskyldunnar ætlar að flýtja í húsið og leigja það og því var ákveðið að leggja sjoppureksturinn af í bili. Annars saknar maður dálitíð sjoppurekstrarins. Þetta var svona eins og litlu verslanirnar sem maður ólst upp við í austurbænum í gamla daga, pínulitlar sjoppur þar sem maður keypti sér frostpinna. Ég var meir að segja sjálfur farinn að afgreiða þarna, en fastakúnnarnir voru litlir strákar að kaupa sælgæti. Ég var farinn að fara í innkaupaleiðangur á bílnum til að fylla lagerinn af drasli og ég hafði orðið töluverðan áhuga á reksrinum. En núna breytist margt og eftir að tölvubúðin kemur verður samt mun hreinlegra í húsinu en samt er farið að þrengja enn meira að okkur því eiginlega þarf tölvubúðin líka svefnherbergið okkar. Þannig að ég stakk upp á því að við reyndum að eignast gamla húsið í sveitinni og fengjum núna loksins að vera prívat. Þegar ég hafði náð að tala Deng á mitt band var allt sett í gang. Hún hafði lengi vel fussað og svejað yfir húsinu, en ég held að þegar hún fór að hugsa um staðsetninguna, þá hafi henni snúist hugur. Þetta var líka dæmi sem við eigum að ráða við auðveldlega og engar skýjaborgir eða draumórar. Síðan fengi maður þá hagleiksmenn, Bömmarann og Dojarann sem allt geta til að laga húsið á nokkrum dögum fyrir lítin pening. (á íslenskan mælikvarða) Núna förum út að borða og höldum upp á þetta sagði ég og ljómaði af gleði. Deng fór síðan að horfa á húsið og bætti við, já og mega svo ekki pabbi og mamma selja dót niðri. Jú að sjálfsögðu sagði ég, en þegar ég hafði sleppt setningunni þá fatti ég að ég hafði talað af mér. Þetta var nú ekki beint hugmyndin bak við kaupin, en húsið er samt það vel staðsett eða beint við veginn. Meira og minna öll vel staðsett hús eru sölubásar. Sennilega hafði ég keypt einn slíkan, þannig að það fer sennilega aftur að þrengja að okkur. Kannski maður fari bara að skoða stærri villur fljótlega. En samningurinn var undirritaður í dag og ég borgaði löggunni 5000 bath sem fyrstu greiðslu. Húsið verður afhent á morgun, en við höfuð 10 daga til að ganga frá lokagreiðslu. Myndin var tekin við undirritun, en sjálfur má ég ekki eiga húsið, því lög hérna banna Farang að eiga hér eignir.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home