Tuesday, November 21, 2006

Árás & rán

Það var ráðist á mig í dag! Atburðurinn átti sér stað þegar við fórum að skoða frægt búddaklaustur sem er staðsett upp á fjalli í um tíu kílómetra fjarlægð frá Wanshapung. Til þess að komast í musterið þarf að ganga upp heljarinnar langan stiga, en einnig er hægt að taka kláf upp á toppinn. Við fórum öll stórfjölskyldan, meðal annars Sigurður Rúnar, Seth bróðir Deng, Deng, Beng, frænkan í strákofanum og sonarsonur hennar litli sonur Muuds. Við keyptum okkur öll svaladrykk áður en við héldum í fjallgönguna, en í stiganum var ráðist á mig og ég rændur. Ég átti mér einskis ills von hér í Thailandi og þótt maður sé veraldarvanur, þá gleymir maður sér stundum. Í útlöndum og sérstaklega í 100 milljón manna landi getur maður alltaf átt von á svona árásum og þessvegna er ég alltaf með innanklæðaveski og tek oftast vasamyndavélina með í skoðunaferðir. En ég átti ekki von á árás í Thailandi í dag. Hélt ég væri óhultur fyrir ákveðnum DRULLUSOKKUM að heiman, en kannski hafði hann bara ákveðið að framkvæma morðhótunina hér í Thailandi og sent á mig einn af sínum skíthælum. Nei þetta gat eiginlega ekki verið einn af glæpahundum Svarthöfða því það var innfæddur Thailendingur sem réðst á mig. Þetta var frekar smávaxinn en snöggt Thaikvikindi sem óð í mig, en hann var nú reyndar apakyns. Ég hafði áður kynnst öpunum við klaustið sem hafa verið gæludýr munkana þarna og við höfðum verið að fóðra þá og gefið þeim banana og majisstangir. Majisstangirnar eru í miklu uppáhaldi, en þeir eru ekki eins hrifnir af banönunum, einhverja hluta vegna. Hins vegar eru þeir styggir og ef maður tekur eina hraða hreyfingu, þá eru þeir flúnir nokkra metra afturábak. En sumir af forustuöpunum eru miklu kaldari og Þessi sem var við stigann var ekkert annað en þrautþjálfaður ræningi. Við löbbuðum upp þennan erfiða stiga, ég, Deng, litla Beng og litli sonur Muud. Hinir biðu niðri í skugganum hjá sölumönnunum. Við höfðum ákveðið að nota ekki kláfinn sem þó býðst öllum sem vilja skoða musterið. Í miðju fjallinu ræðst apinn á son Muuds og tekur af honum svalardrykkinn. Strákurinn verður auðvitað skíthræddur og ég hleyp á eftir honum upp stigann og ætla að stugga apanum frá, en ólíkt öllum öðrum öpum sem ég hef kynnst þarna, þá varð hann ekkert hræddur heldur starði beint og illilega á mig og hjólaði svo í mig með klónum og viti menn hann reif af mér hlutinn sem ég var með í höndunum án þess að ég gat rönd við reist. Hverju stal hann eiginlega frá mér? Ég var með eina myndavél uppi, þá dýrustu Nikon D-50, en síðan var ég með öll mín verðmæti í töskunni, m.a Kodakvélina, Panasonic videovélina, MP4 spilarann, 100 dollara Ray-Ban sólgleraugun, veskið með nokkur þúsund böttum osf. Nei því sem hann stal frá mér var það sem hann girntist mest. Ég hélt nefnilega á jógúrthyrnu í bréfumbúðum og hann vissi nákvæmlega innihaldið. Síðan stökk helvítið yfir í næsta tré og reif upp jógúrthyrnuna og drakk hana af áfergju beint fyrir framan nefið á mér. Honum hafði tekist þarmeð að ræna tvær mannverur á innan við mínútu. Við fórum síðan upp og skoðuðum klaustrið, reyndar í tíunda sinn, en strax við klausturinnganginn beið hann okkar aftur aðeins þrjá metra í burtu. Nú ætlaði hann að ræna okkur í þriðja skiptið, því strákurinn hafði nú fengið gefins annan svaladrykk. Núna varð ég meira viðbúinn og greip kúst sem munkarnir nota og notaði sem vopn gegn apahelvítinu. Ég bað strákinn um að klára drykkinn áður en við héldum niður stigann og síðan rak ég kústinn í fésið á apanum, sem hörfaði fimlega niður stigann. Um miðjan stigann sat hann svo aftur fyrir okkur sallarólegur, en hann hefur fundið það á lyktinni að við vorum ekki með meira matarkyns og því hugði hann ekki á fleirri árásir í bili. Ég smellti því mynd af helvítinu og við héldum svo áfram niður stigann, en þegar við vorum næstum alveg komin niður stigann ákveður hann að renna sér aftur á eftir okkur. Ég var orðinn þreyttur á helvítinu og fann því stórann grjóthnullung sem ég ætlaði að þrusa í hausinn á honum, en Deng stoppaði mig af. Þetta má víst ekki sagði hún og hló svakalega, en mér var ekki skemmt. Þetta eru víst heilagar skeppnur í þessu klaustri, en ég ákvað samt að skjóta þungum steininum í átt til hans og við það fipaðist helvítið. Þessi api er ekki sá stærsti þarna, en hann er samt sá eini sem hefur hjólað í mig. Þetta eru því verstu kynni mín við þessa apa því ég er með stórt klór á handleggnum og kannski verð ég að kíkja á þetta á heilsugærslunni í kvöld. Óli Thai var reyndar búinn að segja mér að einn forustuapinn hefði ráðist á hann og stokkið upp á bakið á honum í hreinni illsku. Kannski eru þessir apar að verða ofaldir og agresífir, hver veit? En við förum þá bara varðlega í næsta skipti sem við heimsækjum þessa thailensku frændur vora.
APARNIR-HÉR


























0 Comments:

Post a Comment

<< Home