Wednesday, September 12, 2007

Æfingablogg

Það hlaut að koma að því að maður þurfti að fara að æfa aftur. Ég keypti mér kort upp í Gym80 fyrir þrem vikur síðan og byrjaði auðvitað rólega eftir að hafa tekið góða pásu í sumar. Reyndar kom það ekki til að góðu, því ég hef verið að kljást við leiðindameiðsl sem hafa hrjáð mig frá miðju sumri. Það kom því sterklega til greina að hætta alveg að skúnkast í líkamsrækt og snúa sér að meðalmennsku í einhverju öðru sporti, en ég hef þó ákveðið að reyna að þrauka eitthvað áfram. Kannski verður það bara gæfa mín að geta ekki æft karlmennskuæfingu númer eitt þs deddið (réttstöðulyftu), því þá get ég jafnvel snúið mér að því eingöngu að geta eitthvað á bekk. Ég æfi því bara tvisvar sinnum í viku meðan skjóðan er svona slæm, en æfingafélagi minn í bekkpressunni er gamall jaxl, sem á m.a sjálfur vel yfir 200 kg í bekkpressu og er sagður getað tekið 300 kg í réttstöðu meðan báðir fætur ganga uppréttir. Hér áður fyrr drukkum við saman brennívín og bjór fram á morgun og máluðum bæinn rauðann, en núna erum við báðir frelsaðir frá þessari vitleysu og reiknum með að eiga smá "comeback" í ellinni. Núna erum við að fikra okkur upp í bekkpressunni og síðasta mánudag tók ég 125 x3, en það er bara ágætt fyrir blýantsnagara eins og mig, sem er nú kominn í tveggja stafa tölu í líkamsvigt. Vigtaðist semsagt 99.99 kíló um kvöldið sem er auðvitað alveg skelfilegt. Ég er semsagt orðinn andlegur og líkamlegur krypplingur.

Saturday, September 08, 2007

Hvað á maður að...

Í dag á ég afmæli og er auðvitað frá fornu fari mikið afmælisbarn í mér. En í dag er ekkert stórafmæli og ég er að vinna næturvaktir sitthvorum megin við afmælisdaginn. Og í millitíðinni er ég svo að passa Tigerinn sem hefur nú uppgötvað nýjan hæfileika, nefnilega klifurtækni. Með alveg ótrúlegri lagni nær hann að sveifla sér upp í tölvustólinn og þaðan príla upp á tölvuborðið þar sem hann kemst í það allraheilagasta í íbúðinni. En hvað um það þá reikna ég ekki með að taka á móti gestum í dag, en hins vegar var það fastur liður í denn að brjóta upp afmælisdaginn með því að fara í keilu, billjard eða út að borða. Í mörg ár fór ég í keiluhöllina í Öskjuhlíð, en hin síðari ár hefur maður kannski skellt sér í billjard eða á pizzastað. Ekki merkilegt svo sem, en í dag var ég að velta fyrir mér að skella mér á Ísland-Spán í knattspyrnu. Veit ekki einu sinni hvort ég fái gott sæti á Laugardalsvelli. Ekki heldur hvort ég fari einn á völlinn, en mér fyndist það þó frekar leiðinlegt. Fyrir tveim árum skelltum við okkur meðal annars til Barcelona & Parísar á stórafmæli mínu. Í framtíðinni mun ég vonandi halda við þessum skemmtilega sið að gera mér dagamun og á stórafmælum mun ég fara til útlanda. Eigum við að segja að ég haldi upp á næsta stórafmæli mitt með góðri Ítalíuferð. Árið verður 2015 og nú er um að gera að byrja að undirbúa sig.

Wednesday, September 05, 2007

Sorry

En ég bara nennti ekki að blogga neitt í sumar, enda í anda stjórnmálamannanna sem létu ekki heyra í sér en eru nú komnir á fulla ferð í bullinu. Auk þess hefur maður ekki verið í skapi til að skrifa neitt, þótt margt hafi á dagana drifið. En núna verður maður bara að setja andann upp og bretta upp á ermarnar. Byrjum á byrjuninni. Í Svignaskarði las ég m.a bók Guðmundar Árna núverandi sendiherra, en í bókinni er hann að rifja upp aðförina gegn honum í upphafi tíunda áratugarins. En hvað gerði Guðmundur eiginlega af sér? Ekki meira en þeir fjölmörgu spilltu stjórnmálamenn sem við höfum fylgst með síðustu tíu árin. Og hver gagnrýndi hann og sparkaði undan honum löppunum á sínum tíma? M.a einn af þeim spilltu stjórnmálamönnum sem nú eru flæktir í spillingarmál Grímseyjarferjunar. En hann þarf að sjálfsögðu ekki að segja af sér því að við Sjálfstæðismenn stöndum með okkar fólki. Annars á ég ekki von á því að neinn taki ábyrgð í þessu máli. Það er eins með þetta og margt annað að stjórnmálmennirnir þurfa aldrei að taka ábyrgð á neinu.

Saturday, September 01, 2007

Sumafríið á enda

Í sumar hefur maður verið að taka sumarfríið í skorpum og núna síðast eyddum við nokkrum dögum í Svignaskarði í Borgarfirði. En ekki hefur maður getið hreyft sig að ráði, því slæm meiðsli hafa sett mark á mig síðan um miðjan júlí og núna er Tigerinn farinn að ganga og síðan hlaupa um allt og því er hann beinlínis farinn að stinga mig af. Já, Tiger er strax farinn að vinna karlinn í einhverju. En án alls gríns þá er þetta auðvitað grátbroslegt að á sama tíma og maður sjálfur gat varla gengið fór sá litli að ganga. Og hvað gerði maður þá í sveitinni annað en slappa af? Jú maður las t.d lifandis ósköp meðan maður hreyfði sig varla út úr húsi. Fórum þó í góðar útsýnisferðir um Borgarfjörðinn, m.a Húsafell, Hvítársíðu, Hvanneyri, Reykholt og svo auðvitað Borgarnes. En auðvitað var maður vel pirraður á því að geta ekki hreyft sig, en það stóð auðvitað aldrei lengi og maður á aldrei að vorkenna sér, þegar annað fólk hefur það ekki eins gott. Af hverju fær þú þér ekki bara staf, sagði Faaborginn og brosti allan hringinn. Já, góð hugmynd að ganga með staf eins og virðulegur greifi. Mr. Faaborg hefur sjálfur verið að finna fyrir eymslum í baki og því er hann ekki hraustur sjálfur, en saman sömdum við um okkar aumingjaskap, eins og Snorri Sturluson forðum, en hann hafði einmitt vetursetu í Svignaskarði fyrir um 800 árum síðan. Gott ef andi Snorra sjálfs hafi ekki komið yfir okkur í sveitinni.

Slitin er mjöðmin

Slitið mitt bak

Svignaskarð erfitt að klífa

Gamall og gugginn

gaddslitið flak

Hár mitt að reita og rífa

DSC_1506