Friday, July 20, 2007

Golf

Félagsliðinn ætlar að skella sér á golfmót í dag, en á ekki von á að árangurinn verði sérstakur. Eiginlega á hann ekki vona á neinum árangri, því hann hefur ekki spilað golfhring í mörg ár. En samt skráði hann sig í mótið og ætlar að treysta á æðri máttarvöld og reyna að sleppa því að verða neðstur. Stefni á næstneðsta sætið. Aðalatriðið er að ekki að vinna, heldur að vera með. En þetta máltæki á auðvitað bara við þegar maður hefur ekki æft sig í mörg ár. Í 99% tilvika á maður sjálfsögðu að setja markið hátt, en í dag verð ég stoltur ef ég týni minna en tíu boltum. Adíos.

Saturday, July 14, 2007

Sumarhús

Þá er félagsliðinn að skoða sig um á Suðurlandi til að finna sumarhús fyrir sig og fjölskyldu sína. Þetta er að ég held þriðja sumarið sem félagsliðinn er að skoða sig um, en í sumar eru mestar líkur á því að hann geri tilboð. Í fyrsta lagi hefur hagur Strympu lagast til muna og dagar víns og rósa eru að baki. Hann er nefnilega fullur sjálfstraust, eftir að hafa næstum staðgreitt einbýlishús á tveim hæðum í N-Thailandi og keypt 100 fm. íbúð með bílskúr í hjarta Reykjavíkur á næstum sama mánuðinum um síðustu áramót. Að sjálfsögðu verður félagsliðinn ekki einn í kaupunum, því hann er búinn að safna liði og þrír til fjórir traustir aðilar innan hans nánasta ætla að taka þátt í dæminu, þannig að nýja sumarhúsið á ekki að kosta meira en ein bíldrusla á hverja fjölskyldu. Félagsliðinn er núna orðinn alger sérfræðingur í sunnlenskum sveitum, því á Grímsnes/Laugavatns/þingvallasvæðinu á bústaðurinn að vera. Ætlum að skoða c.a 4-5 bústaði í sumar og gerum svo tilboð með haustinu. Kannski verða þeir nágrannar Dr. Frölich (Sveinn Ingi heimsmeistari í Víkingaskák) og félagsliðinn og fyrrum heimsmeistari, en Dr. Frölich á bústað á Þingvallasvæðinu. Ekki má fyrrum heimsmeistari í Víkingaskák vera minni maður en núverandi heimsmeistari í leiknum, því allt sem Dr. Frölich getur getur félagsliðinn. Vilji er allt sem þarf sagði einmitt náfrændi félagsliðans Einar Benediktsson í ljóði sínu. Nei, réttara væri að segja að: "Aðgát skal höfð í nærveru sálar."

Núna er nefnilega komið í ljós að nýútskrifaður sjúkraliði ætlar ekki að ganga í Sjúkraliðafélagið, heldur mun hann áfram verða félagsliði á geðsviði LSH. Hvernig getur staðið á því? Jú, launalega hefur hann það mun betur sem félagsliði, heldur en sem nýútskrifaður sjúkraliði, því annars þarf hann að taka á sig launalækkun. Ótrúlegt en satt þá verða þeir félagsliðar sem voru svo vitlausir að fara í sjúkliða"nám" í framhaldi af félagsliðanafnbótinni að taka á sig launalækkun. Þetta eru hrikaleg skilaboð frá yfirmönnum LSH til þeirra c.a sex félagliða sem eiga núna eitt ár eftir af hinni alræmdu sjúkraliðabrú. Skilaboð bloggarans til þeirra eru að hætta námi strax eða styðja bloggarann í þeirri kjarabaráttu sem fram undan er í sumar. Því auðvitað tapar bloggarinn aldrei bardaga! Gamli baráttuhundurinn er alltaf til staðar. Í versta falli ræður hann sig sem félagsliða á einhverju sambýlinu á mun betri kjörum en LSH getur boðið nýútskrifuðum sjúkraliðum.

Ljóst var af morgni og lifnað í grein.
Frá langri nótt gekk ég mannauð stræti.
Við torgið ég sá einn tötrasvein.
Ég tók upp verð, - hann brá að sér fæti.
Landhlaupi var hann og lá upp við stein.
Hann leit á mig snöggt. - Ég ber það í minni.
Einn geisli braust fram, og gullið skein,
gnótt í hans hönd, en aska í minni.

Það smáa er stórt í harmanna heim, -
höpp og slys bera dularlíki, -
og aldrei er sama sinnið hjá tveim,
þótt sama glysi þeir báðir flíki. -
En mundu, þótt veröld sé hjartahörð,
þótt hrokinn sigri og rétturinn víki,
bölið, sem aldrei fékk uppreisn á jörð,
var auðlegð á vöxtum í guðanna ríki.

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti,sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.

Ein hreyfing, eitt orð, - og á örskots-stund
örlaga vorra grunn vér leggjum
á óvæntum, hverfulum farandfund,
við flim og kerskni, hjá hlustandi veggjum.
Hvað vitum vér menn? Eitt vermandi ljóð,
ein veig ber vort líf undir tæmdum dreggjum.
- hvað vill sá sem ræður? Voldug og hljóð
reis verkmanna sól yfir múranna eggjum.

Úr einræðum Starkaðar eftir Einar Benediktsson

Vinjéttur I

Bloggarinn fór í Hveragerði með fjölskylduna í afslöppun og líkaði vel. Það er svo gott fyrir sálina að komast út úr bænum og Ölfusborgir í Hveragerði eru stórkostlega vanmetinn staður. Stutt að halda í allar áttir og golfvellir, fjöll og veiði í næsta nágrenni. Í bókahillu Eflingarbústaðarains voru nokkrar góðar bækur, en sú lang flottasta var VinétturII eftir lífskúnstnerinn Ármann Reynisson.

Eitt kvöldið í fyrra hringir síminn hjá bloggaranum. Bloggarinn tekur símatalið sem hann gerir sjaldnast þegar ókunnug númer eða leyninúmer eru á símanúmerabirtinum. Góðan daginn Bloggari! Ármann Reynisson heiti ég og ég las grein þína um Víkingaskák í vikunni og er fannst þetta fín grein. Mjög áhugavert. Bloggaranum fannst þetta vera frekar dularfullt símtal, þar sem grein hans um Víkingaskákina var síður en svo góð og átti að birtast sem frétt, en ekki sem aðsend grein. Ármann kemur sér nú að efninu og bíður bloggaranum að gerast áskrifandi að Vinjéttusögum sínum. Bloggarinn hlustar nú á Ármann lýsa Vinjéttuforminu og segir bloggaranum frá því að hann sé með fasta og trygga áskrifendur af sögum sínum. Bloggarinn segist því miður ekki hafa nein bókakaup eða áskriftir á stefnuskrá sinni á þessum síðustu og verstu tímum, en við það kveður Ármennið svo hratt að næsti bær við kveðjuna var að skella á bloggarann. Ekki kvöddust þeir því með sömu kurteysi og í upphafi samtalsins. Bloggarinn hafði ekki rekist á Ármann fyrr en hann sá þessa stórmerkilegu bók hans í sumarhúsinu og bókin var því sannkallaður hvalreki fyrir bloggarann á þessum fallegu sumarkvöldum í "sveitinni"

Í sveitinni var Tigerinn í kanínuskónum sínum og í allt í kring um bústaðinn voru hlaupandi kanínur út um allt. Litlu "börnin" Benjamín og Viktoría tóku sig því til og fóru að veiða kanínur og náðu nokkrum stykkjum og komu með þær upp í bústað. Að sjálfsögðu fengu þær að heimsækja okkur og voru mjög gæfar og skemmtilegar. En ekki vildi bloggarinn sjá að hafa þær í sínum húsum, en litlu börnin hlusta ekki á gamlan nöldrandi frænda. Gamli frændi skemmti sér hins vera við að lesa Vinjéttur Ármanns Reynissonar og Hugarfjötur eftir Paulo Coelho. Patrecia og Kiddi Hercúles kíktu svo í heimsókn í öllu kanínufárinu og bloggarinn sýndi þeim stoltur bækurnar sem hann var að lesa. Patrecia sem fædd er í Brasilíu heldur mikið uppá á samlanda sinn Paulo Coelho (en hann skrifaði m.a Alkeimistann) og hún benti bloggaranum á staðreyndir. Coelho þýðir nefnilega kanína á brasilísku/portúgölsku. Í öllu kanínufárinu var ég því að lesa skemmtilega bók eftir Pál Kanínu!

Friday, July 06, 2007

Sumarið er tíminn!

Sumarið er tíminn söng sá aldni heiðursmaður Bubbi Morteins. Þar hitti Bubbi naglann á hausinn eins og stundum áður. Ég hef alltaf haldið mikið upp á Bubba, en eini ljóður á ráði hans hefur verið þetta dóptal, sem að mínu mati virkar eins olía á eldinn fyrir unga fólkið, sem lýtur á goðin sem sína fyrirmynd. En hann er svo sem ekki einn um þetta raup, heldur er þetta vandamál vestrænnar menningar í hnotskurn. Ég get nefnt sem dæmi að fyrir c.a 20. árum gat ég ekki ímyndað mér að hægt væri að hlusta á þungarokk og vera "streit". Ég hata reyndar eiturlyf, en get líka alveg skilið að þetta skuli þrífast í samfélagi voru. Lífið er besta víman sagði einhver spekingurinn og hvað er göfugra en að koma nýjum einstaklingum til manns? Nei, maður er alltaf að finna nýjan tilgang með lífinu og hver maður er einstakur og lífið er yndislegt. Skiptir þá engu máli þótt maður hafi brætt úr bílnum, því þegar ein hurð lokast þá opnast önnur hurð í staðinn. Þessi speki kom m.a úr munni frænda míns Gunnars Dal. Jú, hvað gerðist þegar fjölskyldubílinn eyðilagðist (bræddi úr sér). Ég fór bara niðri kjallara og náði í varabílinn, setti hann svo á númer og fór með hann í skoðun. Í skoðuninni fékk Herramaðurinn II toppeinkunn. Ótrúlegt en satt fann skoðunarmaðurinn ekkert sérstakt að bílnum nema ryðgað bretti og nokkur biluð ljós. Já, maðurinn hlýtur að hafa verið útúrdópaður úr því hann var svona "hrifinn" af Herramanninum. Já, fátt er svo með öllu ýlt að ekki boði nokkuð gott. Þetta sumar er semsagt alveg meiriháttar. Þótt maður búi þröngt, þá er maður samt mjög hamingjusamur og allur bissnes gengur vel hjá okkur (nema auðvitað bílabissnesinn). ÍAMC minn gamli drykkjufélagi forðum hafði samband við mig um daginn á internetskákklúbbnum og hvatti mig til að kíkja á sólarlagið og við mér blasti blóðgult sólarlag. Já, sumarið er sko tíminn!













Monday, July 02, 2007

Húfa í óskilum

Þeir sem tóku óvart húfuna á myndinni í Kolaportinu á laugardaginn fá 10 evrur i fundarlaun. Málið er að þetta er happahúfa og á sér sér langa sögu á Spáni. Húfan er til vinstri á myndinni og er í eigu Tígersins. Ágætu félagar, þetta er ekkert grín. Húfan hefur hitt sjálfan Tyson. Þeir sem sjá ljósbláa barnahúfu eða vita um afdrif hennar, vinsamlegast hafið samband við bloggsíðuna og þið fáið 10. evrur í fundarlaun!

Sunday, July 01, 2007

1. árs

Sigurður Rúnar Phuangphila Gunnarsson er 1. árs í dag. Í tilefni dagsins verður létt kökuveisla fyrir vini og frændfólk. Sigurður hefur mikinn áhuga á lyklakyppum, fjarstýringum og tónlist. En bað og sundferðir eru þó í mestu uppáhaldi!