Friday, July 20, 2007
Saturday, July 14, 2007
Sumarhús
Núna er nefnilega komið í ljós að nýútskrifaður sjúkraliði ætlar ekki að ganga í Sjúkraliðafélagið, heldur mun hann áfram verða félagsliði á geðsviði LSH. Hvernig getur staðið á því? Jú, launalega hefur hann það mun betur sem félagsliði, heldur en sem nýútskrifaður sjúkraliði, því annars þarf hann að taka á sig launalækkun. Ótrúlegt en satt þá verða þeir félagsliðar sem voru svo vitlausir að fara í sjúkliða"nám" í framhaldi af félagsliðanafnbótinni að taka á sig launalækkun. Þetta eru hrikaleg skilaboð frá yfirmönnum LSH til þeirra c.a sex félagliða sem eiga núna eitt ár eftir af hinni alræmdu sjúkraliðabrú. Skilaboð bloggarans til þeirra eru að hætta námi strax eða styðja bloggarann í þeirri kjarabaráttu sem fram undan er í sumar. Því auðvitað tapar bloggarinn aldrei bardaga! Gamli baráttuhundurinn er alltaf til staðar. Í versta falli ræður hann sig sem félagsliða á einhverju sambýlinu á mun betri kjörum en LSH getur boðið nýútskrifuðum sjúkraliðum.
Ljóst var af morgni og lifnað í grein.
Frá langri nótt gekk ég mannauð stræti.
Við torgið ég sá einn tötrasvein.
Ég tók upp verð, - hann brá að sér fæti.
Landhlaupi var hann og lá upp við stein.
Hann leit á mig snöggt. - Ég ber það í minni.
Einn geisli braust fram, og gullið skein,
gnótt í hans hönd, en aska í minni.
Það smáa er stórt í harmanna heim, -
höpp og slys bera dularlíki, -
og aldrei er sama sinnið hjá tveim,
þótt sama glysi þeir báðir flíki. -
En mundu, þótt veröld sé hjartahörð,
þótt hrokinn sigri og rétturinn víki,
bölið, sem aldrei fékk uppreisn á jörð,
var auðlegð á vöxtum í guðanna ríki.
Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt,
sem dropi breytir veig heillar skálar.
Þel getur snúist við atorð eitt.
Aðgát skal höfð í nærveru sálar.
Svo oft leyndist strengur í brjósti,sem brast
við biturt andsvar, gefið án saka.
Hve iðrar margt líf eitt augnakast,
sem aldrei verður tekið til baka.
Ein hreyfing, eitt orð, - og á örskots-stund
örlaga vorra grunn vér leggjum
á óvæntum, hverfulum farandfund,
við flim og kerskni, hjá hlustandi veggjum.
Hvað vitum vér menn? Eitt vermandi ljóð,
ein veig ber vort líf undir tæmdum dreggjum.
- hvað vill sá sem ræður? Voldug og hljóð
reis verkmanna sól yfir múranna eggjum.
Úr einræðum Starkaðar eftir Einar Benediktsson
Vinjéttur I
Bloggarinn fór í Hveragerði með fjölskylduna í afslöppun og líkaði vel. Það er svo gott fyrir sálina að komast út úr bænum og Ölfusborgir í Hveragerði eru stórkostlega vanmetinn staður. Stutt að halda í allar áttir og golfvellir, fjöll og veiði í næsta nágrenni. Í bókahillu Eflingarbústaðarains voru nokkrar góðar bækur, en sú lang flottasta var VinétturII eftir lífskúnstnerinn Ármann Reynisson.
Eitt kvöldið í fyrra hringir síminn hjá bloggaranum. Bloggarinn tekur símatalið sem hann gerir sjaldnast þegar ókunnug númer eða leyninúmer eru á símanúmerabirtinum. Góðan daginn Bloggari! Ármann Reynisson heiti ég og ég las grein þína um Víkingaskák í vikunni og er fannst þetta fín grein. Mjög áhugavert. Bloggaranum fannst þetta vera frekar dularfullt símtal, þar sem grein hans um Víkingaskákina var síður en svo góð og átti að birtast sem frétt, en ekki sem aðsend grein. Ármann kemur sér nú að efninu og bíður bloggaranum að gerast áskrifandi að Vinjéttusögum sínum. Bloggarinn hlustar nú á Ármann lýsa Vinjéttuforminu og segir bloggaranum frá því að hann sé með fasta og trygga áskrifendur af sögum sínum. Bloggarinn segist því miður ekki hafa nein bókakaup eða áskriftir á stefnuskrá sinni á þessum síðustu og verstu tímum, en við það kveður Ármennið svo hratt að næsti bær við kveðjuna var að skella á bloggarann. Ekki kvöddust þeir því með sömu kurteysi og í upphafi samtalsins. Bloggarinn hafði ekki rekist á Ármann fyrr en hann sá þessa stórmerkilegu bók hans í sumarhúsinu og bókin var því sannkallaður hvalreki fyrir bloggarann á þessum fallegu sumarkvöldum í "sveitinni"
Í sveitinni var Tigerinn í kanínuskónum sínum og í allt í kring um bústaðinn voru hlaupandi kanínur út um allt. Litlu "börnin" Benjamín og Viktoría tóku sig því til og fóru að veiða kanínur og náðu nokkrum stykkjum og komu með þær upp í bústað. Að sjálfsögðu fengu þær að heimsækja okkur og voru mjög gæfar og skemmtilegar. En ekki vildi bloggarinn sjá að hafa þær í sínum húsum, en litlu börnin hlusta ekki á gamlan nöldrandi frænda. Gamli frændi skemmti sér hins vera við að lesa Vinjéttur Ármanns Reynissonar og Hugarfjötur eftir Paulo Coelho. Patrecia og Kiddi Hercúles kíktu svo í heimsókn í öllu kanínufárinu og bloggarinn sýndi þeim stoltur bækurnar sem hann var að lesa. Patrecia sem fædd er í Brasilíu heldur mikið uppá á samlanda sinn Paulo Coelho (en hann skrifaði m.a Alkeimistann) og hún benti bloggaranum á staðreyndir. Coelho þýðir nefnilega kanína á brasilísku/portúgölsku. Í öllu kanínufárinu var ég því að lesa skemmtilega bók eftir Pál Kanínu!