Tuesday, June 26, 2007

Hef ekkert.....

Hef í raun ekkkert að segja! Held að ég sé kominn með hina alþekktu ritstíflu. Finn ekki þörf hjá mér að skrifa neitt, þótt ég hafi brætt vélina í bílnum mínum, þótt ég sé lítið að vinna þessa dagana, þótt ég sé ekkert að æfa þessa dagana og þótt í sé algerlega hugmyndasnauður þessa dagana. Sá hins vegar eldgamla bloggsíðu um daginnn með gamalli þýðingu á gömlum dægursmell. Eftir hvern er lagið og eftir hvern er þýðingin? Lagið ættu allir að þekkja, en hver þýddi textann?

IMAGÍNATE

Imagina que no existe el paraíso,
es fácil si lo intentas,
no hay infierno debajo de nosotros,
arriba, solo el cielo.
Imagina a todas las personas
Viviendo al día...
Imagina que no hay fronteras
no es difícil de hacer,
nadie por quien matar o morir,
ni tampoco religión,
imagina a toda la gente,
viviendo en paz...
Puedes decir que soy un soñador,
pero no soy el único,
espero que algún día te unas a nosotros
Y el mundo será como uno.

Sunday, June 24, 2007

Þegar ég "rústaði"....

Ég er því miður ekki mikill bílakarl, þótt að ég hafi tekið ástfóstri við þessar bíldruslur sem ég hef eignast, m.a Herramann I & Herramann II. Núna um helgina gerði ég mér hins vegar sekan um vítavert kæruleysi í umhirðu Opelsins. Þannig er mál með vexti að við ætlum að ferðast dálítið í sumar og fyrsta alvöru ferðin var upp í Húsafell núna um helgina. Þangað héldum við í heimsókn til Vilborgar og Vikars, en þau eiga þennan fína eldri bústað í fallegum birkiskógi á einum fegursta stað Íslands í Húsafelli. Ferðin var svo sem fín, en frú Deng vildi bara gista eina nótt, því svefnaðstaðan er ekkert sérstök fyrir lítið kríli og vitleysinga úr Álftamýrinni. Í stuttu máli geri ég þau reginmistök í upphafi að kanna ekki ástand bílsins áður en haldið var í "langferð". Þs að mæla olíu og vatn. Þetta var hún móðir mín búinn að innprenta mér fyrir mörgum árum og ég aldrei farið eftir neinu. Síðan gerist það á heimleiðinni á laugardaginn að bílinn fer að ofhitna þegar við höfðu yfirgefið Húsafell og þegar c.a 15 kílómetrar eru eftir í Borgarnes þá verð ég var við að bíllinn verður hálf kraftlaus, ekkert ósvipað og þegar ég rústaði kúplingunni á gamla grána hér um árið. Mér verður svo litið á hitamæli bílsins og sé að hann er farinn að stíga upp. Ég afréð því að stöðva bílinn mjög fljótlega, en staðurinn var sennilega lítil sjoppubúlla á Kleppjárnsreykjum (verð að viðurkenna að ég þekki ekki nógu vel staðhætti í Borgarfirði og nennti ekki að skoða vegskilti í þessu veseni öllu). Þegar bíllinn hafði kælt sig niður, þá kíkti ég undir húddið og sé ekkert óvenjulegt. Nenni ekki að kíkja á olíu og vatn, enda enginn bensínstöð í þessu krummaskuði og tek þá arfavitlausu ákvörðun að keyra áfram. Að sjálfsögðu stoppaði bíllin svo í síðustu brekkunni við Borgarnesbrúnna. Þá kemur jeppatöffari einn og kíkir á ástand bílsins og ráðleggur mér eindregið að reyna ekki að gangsetja hann aftur og býðst til að draga okkur í Borgarnes, sem ég hafði sagt vera næsta áningarstað. Þá tók við löng leit að dráttarkúlunni sem skrúfa átti framan á bílinn, en eins og menn vita sem þekkja mig þá get ég ekki opnað skottið á bílnum og því var leitin mjög erfið, en hafðist þó fyrir rest. Þegar í Hyrnuna (N-1) var komið þá þakkaði ég velgjörðamanni mínum fyrir og fór svo að ráðfæra mig við bensínafgreiðslumenn staðarins og viti menn, því farið hafði sundur vatnsslanga og kælikerfið því ekki "fúnkerað". Einnig vantaði um tvo lítra af olíu á vélina, en stuttu seinna var ég kominn í samband við viðgerðarmann í Borgarnesi sem ætlar að taka bílinn eftir helgi. Í versta falli er ég búinn að rústa vélinni og svokölluð heddpakning farinn. Já ég er búinn að taka við óbótarskömmum síðustu daga, því menn hafa spurt mig hvers vegna ég stöðvaði ekki bílinn á staðnum og hringdi eftir aðstoð!! En hvert átti ég að hringja? Hver hefði komið upp í miðjan Borgarfjörð á laugardagskvöldi til að hjálpa svona vitleysingi. Átti Halldór Faaborg að koma blindfullur úr grillveislunni frá Faaborgmömmu eða hvern átti ég að treysta á? En eftir á að hyggja áttum við auðvitað að hringja í Óla Thai, sem síðar sótti okkur upp í Borgarnes. Hann hefði skipað mér að stoppa á staðnum og hefði svo rent eftir okkur. En svona er nú það. Reikna með að þessi vitleysa eigi eftir að kosta mig 5-10 aukavaktir og reiknið þið svo hvað það kostar að rústa vélinni. Kemur vonandi í ljós á morgun! En við erum sem betur fer öll heil og það er það sem skiptir máli, en ekki eitthvað væl um peninga. En vonandi lærir maður einu sinni af reynslunni. Félagi minn Rúdolf Pálsson heimspekingur og skáld sagði einu sinni að hann (við) lærði aldrei af reynslunni, heldur væri hann alltaf að gera sömu mistökin aftur og aftur.

Síra Gunnar


Wednesday, June 20, 2007

11. mánaða strákar


Til hamingju Madrid

Real Madridliðið vann Spánartitilinn í gær, eftir mjög dramtískann leik við Mallorcaliðið. Þegar um tíu mínútur voru eftir af leiknum var Barcelónalið með pálmann í höndunum, því þeir voru að rótbursta Tarragona liðið, meðan staðan var 1-1 í leik Real Madrid og Mallorca. Síðan kláraði Real leikinn eins og þeir hafa svo oft gert í vetur, en þeir áttu frábæran endasprett, með frábærri endurkomu David Bechams. Barcelona getur bara sjálfum sér um kennt því þeir voru með unnið mót fyrir nokkrum umferðum en klúðruðu tækifærinu.

En núna er stóra spurningin hvað Eiður gerir. Persónulega trúi ég því að hann vilji reyna eitt ár í viðbót í Barcelóna, því hann er á góðum launum og fjölskyldan er að koma sér fyrir í útjaðri borgarinnar. Eiður er hvort eð er að missa áhugann á fótbolta, m.a er árangur landsliðsins ekkert til að hrópa húrra fyrir og því skiptir það okkur litlu hvort Eiður spili lítið eða mikið. En svo er bara að vona að liðið fari ekki að selja hann strax frá sér. Hann á bara að vera Óli Gunnar Solskjer þeirra Börsunga. Á bara að vera stoltur að því að sitja á tréverkinu.

En ég vil aftur óska konungsliðinu frá Madrid til hamingju með góðan titil. Madridarliðið er gamla stolt spænskra þjóðernissinna og fasista og ég held að Franco gamli hefði fagnað manna mest ef hann væri á lífi. Svo vil ég minna menn á það að ég hélt lengi vel með Madridarliðin, þegar gammurinn Budragenio og Hugo Sanches voru upp á sitt besta. Fór svo að halda meira með Barcelónu eftir 1999, en notabene ekki eftir að Eiður kom þangað í fyrra. Ég er maður sem fer ekki bara að halda með liði, þótt Eiður Smári sitji á bekknum hjá viðkomandi liði. En ég er nú samt farinn að halda með West Ham í ensku útaf Íslendingatengslunum.

kveðja Gunnar Reykás!

Monday, June 18, 2007

Ferðasaga II

Þurfti bara nauðsynlega að komast í frí og vildi auðvitað draga fjölskylduna með mér. Það kom í raun aldrei til greina að ferðast með Heimsferðum aftur eftir Gíbraltarævintýrið svokallaða, en aðstæðurnar höguðu því þannig að ég þurfti að brjóta odd á oflæti mínu og ferðast með þessari ferðaskrifstofu. Varð bara að komast í frí akkúrat fyrstu vikuna í júni. Ekki kom til greina að ferðast á stand-by miðum Icelandair með lítið kríli í svona stutta ferð. Og ekki voru neinar ferðir með Úrval Útsýn, Sólarferðum eða Plúsferðum sem hentuðu. Vildi komast til Spánar beint og þá helst til Mallorca. En á endanum var ákveðið að fara til Krítar með Úrval Útsýn, en guggnaði á því á endanum og kíkti á skrifstofu Heimsferða og pantaði ferð.

En Gíbraltarævintýrið snérist í örstuttu máli um ferð sem við Deng fórum með Halldóri Ólafsyni til Costa del Sól árið 2004. Heimsferðir seldi okkur svo öllum rándýra rútuferð til Gíbraltar og þangað héldum við sæl og glöð, þangað til kom í ljós að Deng var meinaður aðgangur að "landinu". Gíbraltar er nefnilega hluti af breska heimsveldinu og tekur því ekki þátt í Schengensamstarfinu, sem þýddi að Deng mátti ekki fara yfir landamærin. Þetta hefðum við svo sem átt að vita og líka kynlausi farastjóri Heimsferða sem seldi okkur ferðina á 140 evrur. Ég gat að sjálfsögðu ekki skilið Deng eina eftir í spænska landamærabænum og því urðum við tvö að hunskast út úr rútunni og biða hálfan daginn í þessum fúla bæ, meðan hinir skemmtu sér með öpunum á Gíbraltarklettum. Ekki kom til greina hjá Heimsferðum að greiða okkur til baka annan miðann, en ég fór ekki fram á meira en það. Ég ætlaði sko aldrei aftur að skipta við þetta skítafyrirtæki, sem ég hafði margoft verslað við áður.

En ég stóð ekki við það og við fórum í fína ferð með strákinn á Alcudiaströndina. Þetta var mjög fjölskylduvænn staður og virkilega þægilegt að vera þarna. Á hótelinu var kvöldskemmtun á hverju kvöldi og þarna sá ég eina frábæra Rod Stewart eftirhermu, en ég hefði getað svarið að þar væri "orginalinn" sjálfur mættur að skemmta. Siðan var bara slappað af við hótelið, en einnig skroppið í stutta ferð til Palma og einn daginn var splæst í bílaleigubíl. Eyjan er mjög falleg og ég sé mest eftir því að hafa ekki leigt bílinn mun oftar því það er gífurlega margt spennandi að sjá á eyjunni. Við þræddum meðal annars strandbæina á austurströndinni, m.a Calla Millor og Porto Cristo, en ég var einmitt í minni fyrstu ferð á Cala Millor fyrir um 20. árum síðan. Eyddi um tveim tímum að leita að gamla hótelinu sem við vorum á, en fann því miður ekki. Mundi hreinlega ekki hvað það hét, né hvort það var í Cala Millor sjálfri eða Sa Coma. Ekkert skrítið þótt að ég muni ekki hvar hótelið var, því ég var nær alltaf fullur. Í þeirri ferð leigði maður m.a móturhjól og fór á því til Palma, en þangað hjólaði ég m.a tvisvar sinnum og villtist illa í seinna skiptið, enda var vegakerfið mun verra á þeim árum. En núna var ég bara fínn gamall karl á bílaleigubíl og lét móturhjólið eiga sig.

Eins og svo oft áður stóðu Heimsferðir sig vel, þótt að það hefði verið keyrt tvisvar sinnum á flugvélina í fyrra skiptið þegar við vorum á leiðinni út, þá keyrðu einhverjir fraktmenn á flugvélina og skemmdu hana. Það sama gerðist þegar átti að halda heim, en þá keyrðu einhverjir aðrir fraktmenn á þá vél líka og heimferðin tafðist um nokkra klukkutíma vegna þessa, en þeir sem komu frá Íslandi þurftu að bíða í 14. tíma. Í raun er þetta alveg ótrúlegt að tvær vélar skulu hafa verið skemmdar með þessum hætti á innan við viku! Og mjög margir viðskiptavinir fóru einmitt í vikuferð og lentu því í töfum vegna þessa á báðum flugleiðum. En farastjórinn hann Högni var mjög góður, en hann er maður á miðjum aldri sem sinnir sýnu starfi að álúð og er virkilega að þjónusta farþegana. Högni þessi talar bæði spænsku og katalónsku, en á Mallorca er einmitt töluð katalónska, sem þessi aldni fararstjóri lærði í Barcelonu síðasta áratug. Að vera fararstjóri er örugglega ekki auðvelt, en oft eru farastjórar hjá þessum ferðaskrifstofum ungar stúlkur sem tala spænskuna reiprennandi, en hafa hvorki þroska né reynslu til að liðsinna fólki.

Ég komast að því að Gíbraltarferðin situr ennþá þungt í mér og jafnvel þótt að Heimferðir hafi virkilega staðið sig vel ætla ég aldrei aftur að skipta við þá, fyrr en ég fæ einhvern frá fyrirtækinu til að viðurkenna að þeir hafi farið illa með okkur á Costa del Sol.

Baldvin









































































































Wednesday, June 13, 2007

Ferðasaga

Við fórum í rólyndisferð á norðuausturhluta Mallorca, en sá staður er "muy turistico", eins og mig mig minnir að svona túristastaðir séu kallaðir á spánskri tungu. Reyndar hef ég aðeins þrisvar sinnum séð ömurlegri túristastað, m.a Lloret de Mar, enska ströndin á Gran Canari á Kanaríeyjum og þessi túristastaður. En ekki miskilja mig, því þetta var svakalega notaleg ferð og ekkert upp á Heimsferðir að kvarta. En af hverju valdi ég að fara með Heimsferðum, þegar þeir fóru svona illa með mig um árið....framh. fljótlega. Adíos.

Á Mallorca

Til að leiðrétta allan miskilning þá er ég ekki hættur að blogga því vid erum flutt til Mallorca! Skrifa meira um það siðar. Kveðja úr sólinni!

Saturday, June 09, 2007

48. vikna

Í siðustu viku skelltum við okkur til Mallorca og það var svakalega gaman að busla í sundlauginni!