Sunday, June 24, 2007

Þegar ég "rústaði"....

Ég er því miður ekki mikill bílakarl, þótt að ég hafi tekið ástfóstri við þessar bíldruslur sem ég hef eignast, m.a Herramann I & Herramann II. Núna um helgina gerði ég mér hins vegar sekan um vítavert kæruleysi í umhirðu Opelsins. Þannig er mál með vexti að við ætlum að ferðast dálítið í sumar og fyrsta alvöru ferðin var upp í Húsafell núna um helgina. Þangað héldum við í heimsókn til Vilborgar og Vikars, en þau eiga þennan fína eldri bústað í fallegum birkiskógi á einum fegursta stað Íslands í Húsafelli. Ferðin var svo sem fín, en frú Deng vildi bara gista eina nótt, því svefnaðstaðan er ekkert sérstök fyrir lítið kríli og vitleysinga úr Álftamýrinni. Í stuttu máli geri ég þau reginmistök í upphafi að kanna ekki ástand bílsins áður en haldið var í "langferð". Þs að mæla olíu og vatn. Þetta var hún móðir mín búinn að innprenta mér fyrir mörgum árum og ég aldrei farið eftir neinu. Síðan gerist það á heimleiðinni á laugardaginn að bílinn fer að ofhitna þegar við höfðu yfirgefið Húsafell og þegar c.a 15 kílómetrar eru eftir í Borgarnes þá verð ég var við að bíllinn verður hálf kraftlaus, ekkert ósvipað og þegar ég rústaði kúplingunni á gamla grána hér um árið. Mér verður svo litið á hitamæli bílsins og sé að hann er farinn að stíga upp. Ég afréð því að stöðva bílinn mjög fljótlega, en staðurinn var sennilega lítil sjoppubúlla á Kleppjárnsreykjum (verð að viðurkenna að ég þekki ekki nógu vel staðhætti í Borgarfirði og nennti ekki að skoða vegskilti í þessu veseni öllu). Þegar bíllinn hafði kælt sig niður, þá kíkti ég undir húddið og sé ekkert óvenjulegt. Nenni ekki að kíkja á olíu og vatn, enda enginn bensínstöð í þessu krummaskuði og tek þá arfavitlausu ákvörðun að keyra áfram. Að sjálfsögðu stoppaði bíllin svo í síðustu brekkunni við Borgarnesbrúnna. Þá kemur jeppatöffari einn og kíkir á ástand bílsins og ráðleggur mér eindregið að reyna ekki að gangsetja hann aftur og býðst til að draga okkur í Borgarnes, sem ég hafði sagt vera næsta áningarstað. Þá tók við löng leit að dráttarkúlunni sem skrúfa átti framan á bílinn, en eins og menn vita sem þekkja mig þá get ég ekki opnað skottið á bílnum og því var leitin mjög erfið, en hafðist þó fyrir rest. Þegar í Hyrnuna (N-1) var komið þá þakkaði ég velgjörðamanni mínum fyrir og fór svo að ráðfæra mig við bensínafgreiðslumenn staðarins og viti menn, því farið hafði sundur vatnsslanga og kælikerfið því ekki "fúnkerað". Einnig vantaði um tvo lítra af olíu á vélina, en stuttu seinna var ég kominn í samband við viðgerðarmann í Borgarnesi sem ætlar að taka bílinn eftir helgi. Í versta falli er ég búinn að rústa vélinni og svokölluð heddpakning farinn. Já ég er búinn að taka við óbótarskömmum síðustu daga, því menn hafa spurt mig hvers vegna ég stöðvaði ekki bílinn á staðnum og hringdi eftir aðstoð!! En hvert átti ég að hringja? Hver hefði komið upp í miðjan Borgarfjörð á laugardagskvöldi til að hjálpa svona vitleysingi. Átti Halldór Faaborg að koma blindfullur úr grillveislunni frá Faaborgmömmu eða hvern átti ég að treysta á? En eftir á að hyggja áttum við auðvitað að hringja í Óla Thai, sem síðar sótti okkur upp í Borgarnes. Hann hefði skipað mér að stoppa á staðnum og hefði svo rent eftir okkur. En svona er nú það. Reikna með að þessi vitleysa eigi eftir að kosta mig 5-10 aukavaktir og reiknið þið svo hvað það kostar að rústa vélinni. Kemur vonandi í ljós á morgun! En við erum sem betur fer öll heil og það er það sem skiptir máli, en ekki eitthvað væl um peninga. En vonandi lærir maður einu sinni af reynslunni. Félagi minn Rúdolf Pálsson heimspekingur og skáld sagði einu sinni að hann (við) lærði aldrei af reynslunni, heldur væri hann alltaf að gera sömu mistökin aftur og aftur.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home