Wednesday, December 12, 2007

Fréttir

Eins og aðdáendum Mastersins hafa tekið eftir þá hefur bloggið ekki verið í neinum forgangi þessa daganna. Ein ástæða þess er tæknilegs eðlis, því 1 GB myndkortið mitt hefur laskast eitthvað og tæplega 300 myndir hafa sennilega eyðilagst, m.a myndirnar úr nýjustu Thailandsför. Sem betur fer var ég nú með litlu Kodakvélina meðferðis, þannig að einhverjar myndir eiga samt eftir að detta inn á næstu dögum eftir að tæknimálin hafa verið leyst.

Eftir að ég kom heim hefur vinnugeðveikin tekið við, en ekki bara til að borga ferðina, sem var svona í meðal lagi dýr, heldur féllu hlutabréfin okkar í FL Group mikið síðustu dagana fyrir jól. Deng hafði einmitt verið að mjálma um það í sumar að selja nú bréfin, en þá voru þau einmitt í miklum toppi. Ég hélt nú ekki og sagði henni þá skoðun mína að bréfin ættu enn eftir að hækka vegna þess að Hannes Smárason væri alger snillingur og í öðru lagi væri meiriháttar gaman að eiga hlut í fyrirtækinu sem maður vinnur hjá. Ætli ég bæti henni þetta ekki upp og kaupi af henni bréfin á genginu 30. Hef ennþá mikla trú á því að fyrirtækið eigi eftir að rísa upp úr öskustónni undir dyggri forustu Baugsfjölskyldunnar.

Fyrir nokkrum dögum var þriðja kraftlyftingasambandið stofnað og mun það heita Kraftlyftingafélagið Metal og mun það keppa undir merkjum WPF alþjóðasambandsins í Kraftlyftingum. Fyrir var hið gamalgróna Kraftlyftingasambands Íslands og WPC sambandið sem stofnað var árið 2005. Hið nýja samband ætlar að rífa kraftlyftingarnar upp úr þeirri lægð, sem þeir vilja meina að sportið hafi lent í hin síðustu misseri og munu þeir halda vegleg mót á hinu nýja ári og mun fyrsta mót þeirra verða Meistaramóti ÍFK Metal í bekkpressu 19 janúar 2008…..GLEYMIÐ EKKI ÞEIM DEGI! Masterinn óskar hinu nýja félagi góðs gengis á hinu nýja ári og hlakkar til að horfa á fullt af skemmtilegum mótum á næstu misserum. Hver veit nema hann eigi eftir að hætta við að hætta við að hætta í þessu sporti.

Já, Masterinn ætlar að boða "comeback" sitt í sportinu á hinu nýja ári. Hann er nú orðinn heill heilsu eftir skelfileg meiðsli sem hrjáðu hann síðasta sumar. Þegar hann hafði loks jafnað sig síðasta haust, þá þurfti hann endilega að skella sér hinum megin á hnöttinn til að huga að sveitasetri sínu og þar hóf hann æfingar í hinu afleita "gay-gymmi". Endurkoma Mastersins mun sennilega verða í réttstöðulyftu, en hann hefur skorað á hinn geysiefnilega Emil Tölvu-Trylli að mæta sér í einvígi á Massamótinu í réttstöðulyftu í Reykjanesbæ í febrúar. Þs ef Masterinn fær að keppa sem gestur. Eftir mótið er ætlunin að skreppa í vöfflur til Jónasar Einkunnarmeistara sem er nýfluttur í bæinn. Einnig vonast Master til að hitta fornvin sinn Stefán Spjóta sem einnig er nýfluttur í þennan blessaða bæ. (Kannski Masterinn ætti að fara að skoða einbýlishúsin þarna). Síðan þegar fer að vora ætlar Masterinn svo að mæta hinum efnilega Tvister í einvígi í bekkpressu, en Tvister ætlar fljótlega að taka tvistinn í bekknum. Já ég held bara að andinn sé að detta aftur yfir karlinn, en Masterinn verður auðvitað að byrja að æfa, ef hann ætlar að eiga séns í Tryllir og Tvister. Svo er það auðvitað Spjótinn. Skora líka á hann í einvígi á nýju ári.

Í vikunni vann deildin mín sigur á Íslandsmóti geðdeildasveita í skák. Síðustu tvö árin höfum við Ágúst Örn verið í fararbroddi fyrir því að vinna þessa keppni, en núna í ár vorum við eiginlega orðnir leiðir á því að vinna alltaf, enda var okkur uppá lagt að gefa fleiri sveitum séns. Þess vegna hafði ég forgöngu um það að sveit 32c sendi sendi sterka sveit á mótið, en í ár hafði mótið sjálft forgöngu, en ekki sigur eigin liðs. Magnús "Kólí" Magnússon tók því við fyrirliðahlutverki í hinni löskuðu Sveit deildar-12. Þegar á hólminn var komið, var deild-12 með jöfnustu sveitina, en þriðji borðsmaður þeirra, var lánsmaðurinn Árni "gamli" úr skákklúbbnum Vin. Einnig sendi deild 36 mjög sterka sveit með þá Erling Þorsteins og Björn Sölva Sigurjónsson í broddi fylkingar, en einungis einn vinningur skildi að þrjár efstu sveitirnar. Deildin mín á ekki lengur skápapláss fyrir fleiri bikara og því vonum við innilega að ný sveit nái að sigra á næsta ári. Engu að síður var þetta mjög skemmtilegt mót og úrslit mótsins má m.a nálgast á Skák.is. Úrslit hér

Snilld

Þvílík snilld er þetta lag. Ég á bara ekki til orð og það er langt síðan íslenskt lag hefur fallið mér svona vel í geð. Þetta lag er eiginlega schitzofreniskt. Tvö lög í einu lagi. Einfalt, hallærislegt, kröftugt og mjúkt í senn. Tveir miðaldar karlar, annar fríkaður eins og aðal gaurinn úr Rocky Horror Pictures Show, en hinn eins og feitur handrukkari. En báðir klæddir í gult & bleikt. Ég eiginlega krefst þess að þetta lag komist áfram í aðalkeppnina. Þetta er okkar síðasta von fyrir þetta Eurovision dæmi. Ég er búinn að taka þátt í þessu rugli síðan Gleðibankinn átti að sigra heiminn árið 1986. Síðan þá hef ég marg oft fallið í þá gryfju að halda með litla Íslandi því við værum núna komin með svo frábært lag. Síðast var það Eiríkur Rauði og þar á undan Silvía Nótt, en eins og venjulega þá komust við ekki einu sinni upp úr undanrásunum. En núna er rétta lagið komið og það er bara undir okkur sjálfum komið hvort við höfum vit á því að senda lagið til Evrópu.

Í gamla daga var það aðalbrandarinn hjá okkur vinunum að sjá Dr. Gunna á skemmtilstöðunum. Dr Gunni, sem var ekki mikið eldri en við og varla fríðari, kom iðulega út af skemmtistöðum eins og Laugavegi 22 með 2-3 stúlkur upp á arminn og hvarf svo upp Klappastíginn með þeim í eitthvað heimapartý. Að sjálfsögðu lögðum við saman 2+2 og fengum það út að þessi maður hlyti að vera hinn mesti sjarmör. Það var því viðkvæðið hjá okkur félögum að ef Dr. Gunni gæti náð sér í kerlingu, þá gætum við það líka. En því miður var það nú oftast brennivín og bjór sem við höfðum mestan áhuga á og allt annað klúðraðist að sjálfsögðu. Síðan þá hefur mér alltaf þótt dr Gunni vera yfirburðarmaður á sínu sviði. Ekki það að ég þekki manninn neitt og ekki lítur hann út fyrir að vera neitt sjarmatröll hvorki fyrr né síðar. Svo rifjast það upp núna að ég fyrirgaf honum aldrei fyrir að gefa Herberti Guðmundsyni hauskúpu í einkunn fyrir plötu sína í denn. Ég gat ekki eiginlega ekki fyrirgefið honum þessar árás á besta poppara Íslandsögunar, en núna er þetta allt gleymt. Dr. Gunni er bestur í heimi. Ísland best í heimi!

Dr- Spock : "Hvar ert þú

Æfingablogg

Hér í Thailandi ætlaði maður að skella sér á æfingu til að halda sér í formi. Það var liðinn hálfur mánuður af ferðinni, þegar maður skellti sér á fimmstjörnu hótelið hér í Loei (Loei Palace Hótel) og vildi borga fyrir æfingu "gay"-gymminu. Starfsmaðurinn í móttöku hótelsins sagði að því miður væri bæði sundlaugin og fitness salurinn lokaður vegna viðgerða og viðhalds og opnaði ekki fyrr en eftir um tíu daga. Að sjálfsögðu var þetta smá áfall í viðburðarleysinu hér í sveitinni, en smá tilhlökkun fór að berast í brjósti mér vegna þess að nú ætlaði hótelið að taka til hendinni og endurnýja "salinn", sem stóða varla undir nafni. 12. nóvember mættum við svo fjölskyldan á æfingu, en þá kom í ljós að sundlaugin og æfingasalurinn voru í nákvæmlega sama ástandi og í fyrra. Erfitt var að sjá hvort eitthvað hafi verið unnið á svæðinu, en helst datt manni í hug að sturtuaðstaðan hefði verið tekin í gegn, en það var ekki að sjá. Við fengum eiginlega enga skýringu á þessari vitleysu, en þetta varð til þess að lítið var æft í ferðinni. Manni hefur svo sem dottið í hug að í Loei, stærsta bænum í sveitinni gæti leynst viðskiptatækifæri og ég gæti orðið frumherji á sviði líkamsræktar á svæðinu. Einhverskonar Bjössi í World-Class hér í Leoi. Held að ég láti bara verða af því næst þegar ég kem hingað. Nenni heldur ekki að vera svo mikið í Wangsaphung (bænum mínum), heldur finnst mér miklu skemmtilegra að vera í Leoi, sem er mun stærri bær og starfsemi af þessu tagi myndi frekar ganga upp.

The Loei Palace hótel

Wangsphung

One night in Bangkok

29. nóvember

Viktoría Johnsen á afmæli í dag. Hún er fædd 1993 og er því 14 ára gömul. Gunnar Friðriksson afi var fæddur þennan dag árið 1913 og hann hefði því orðið 94. ára í dag hefði hann lifað. Það þarf ekki að taka það fram að björgunarskipið Gunnar Friðriksson frá Ísafirði er nefnt eftir Gunnari Friðrikssyni frá Látrum í Aðalvík.

Gunnar fæddist 29. nóvember 1913, að Látrum í Aðalvík. Foreldrar hans voru hjónin Friðrik Magnússon, útvegsbóndi og Rannveig Ásgeirsdóttir. Gunnar ólst upp í Aðalvík en sótti barnaskóla, m.a. á Ísafirði, einn vetur og gagnfræðanám og útskrifaðist úr gagnfræðaskóla á Ísafirði 1932. Sama ár hóf hann útgerð og fiskvinnslu í heimabyggð sinni í Aðalvík aðeins 18 ára gamall. Rak hann þar útgerð og stundaði sjómennsku til ársins 1935. Gunnar stundaði sjómennsku, verslunar- og verksmiðjustörf í Djúpuvík og Reykjavík til 1940 er hann stofnaði ásamt Sæmundi Stefánssyni eigið innflutningsfyrirtæki, Vélasöluna hf. í Reykjavík. Rak hann það fyrirtæki í yfir 60 ár. Upp úr 1950 hóf Gunnar undirbúning að innflutningi á fiskiskipum fyrir útgerðarmenn og jukust smám saman umsvif hans á því sviði. Stóð hann að innflutningi mikils fjölda skipa um árabil. Þá átti Gunnar um skeið hlut í útgerðarfyrirtækjum. Gunnar lét sig slysavarnamál miklu varða. Hóf hann störf á þeim vettvangi um 1950 og var kjörinn í aðalstjórn Slysavarnafélags Íslands 1956. Var Gunnar rúman aldarfjórðung í stjórn SVFÍ og var hann forseti félagsins í 22 ár, frá árinu 1960 til 1982. Gunnar vann að ýmsum öðrum félagsmálum allt frá unglingsárum og átti sæti í stjórn fjölda félaga og samtaka. 17 ára gamall var hann t.d. fulltrúi á þingi Alþýðusambands Íslands. Árið 1940 kvæntist Gunnar Unni Halldórsdóttur frá Sandbrekku í Hjaltastaðaþinghá. Unnur lést árið 1999. Eignuðust þau þrjú börn, Friðrik, Rúnar og Guðrúnu, en áður átti Gunnar einn son, Sæmund.

Myndin af Gunnari afa og Gísla Halldórssyni er sennilega ein síðasta mynd sem tekin var af honum, en myndin var tekin á Kaffi París í nóvember árið 2004. Þar sátu þessar öldnu kempur löngum stundum og ræddu gamla tíma. Á veggnum á kaffistofunni var síðan hengt upp mynd af þessum öldnu fastakúnnum, en eftir að staðnum var breytt virðist enginn vita hvað varð um myndina góðu

Landeyjarnar

Frábært framtak. Núna getur maður farið í Landeyjarnar án þess að rústa bílnum sínum. Á Krossi í A-Landeyjum skammt frá Bakkafjöru er nefnilega gömul falleg kirkja og á lóðinni er reiturinn sem gamla húsið langömmu og langafa stóð. Ég var nú reyndar ekki fæddur þegar gamla húsið var rifið, en fjölskyldan reynir að fara í pílagrímsferðir að Krossi, minnsta kosti einu sinni á ári.

Afi minn hét Guðni Gíslason og var af hinu svokallaða Sleifarkyni, kennt við bæinn Sleif í sveitinni. Af þeirri ætt eru m.a nokkrir frægir Íslendingar, en sagt var að Gísli faðir Guðna hefði verið rangfeðraður. Afi Gísla langafa var einn af voldugustu mönnnum nítjándu aldarinnar og sagður bera ættanafnið Thorarensen, en gamlar frænkur þora ekki enn að ganga í þetta mál, enda sennilega of seint. Þar með á maður að öllum líkindum fullt af náskyldum ættingjum, sem komnir eru af hinum þekkta embættismanni, en það er hvergi skráð, m.a í Íslendingabók.

lang-amma mín Helga María Þorbergsdóttir var líka rangfeðruð, en pabbi hennar var líka mjög þekktur á sinni tíð vegna athafnarsemi sinnar. Ekki er heldur þorandi að nafngreina hann vegna þess að hann á líka mikið af afkomendum, sem yrðu kannski ekki ánægðir að frétta þetta á einhverju bloggi út í bæ. Sagt var að Þorbergur, sem dó árið sem langamma fæddist, hafi ekki verið faðir hennar. Langafi og langamma voru bláfátækir leiguliðar, sem eignuðust fjögur börn, þrjár stelpur og einn strák. Vegna mikillar fátæktar var bara hægt að senda elsta soninn til mennta, en seinna varð hann (Þórarinn Guðnason) mjög þekktur skurðlæknir og bókaþýðandi. Þýddi m.a uppáhaldsbókina mína Manntafl, eftir Stefan Zweig.

Amma mín, Bergþóra og systur hennar Þórhalla og Guðrún voru líka búnar miklum mannkostum, en amma mín starfaði mikið við aðhlynningu eftir að hún flutti til Reykjavíkur með afa mínum Sigurði Guðmundsyni barnaskólakennara. Afi var Skaftfellingur í húð og hár, fæddur í Vík í Mýrdal, en kenndi lengi vel að Seljalandi og Skógum undir Eyjafjöllum. Þessir staðir eru líka helgir í huga fjölskyldunnar, þs, Skógar, Seljaland og Vík. Sjálfur hef ég ekki farið í mörg ár að Krossi, en var á leiðinni þangað um verslunarmannahelgina, þegar bíllinn næstum bræddi aftur úr sér. Nú voru góð ráð dýr, en við troðum okkur því öll inn í litla bílinn hennar mömmu og við komust á endanum á helgasta stað á Íslandi. Svo bauðst fjölskyldunni að byggja sumarbústað á lóðinni, af þáverandi landeigendum, en ekki nokkur maður í stórfjölskyldunni hafði áhuga eða getu til að standa í svoleiðis vitleysu fyrir c.a 20. árum. Nú er útlit fyrir að þetta svæði verði svakalega vinsælt og eftirsótt, en það er að sjálfsögðu allt of seint að fara að heimta skikann núna, enda allt aðrir eigendur held ég.

Þessi pistill er reyndar skrifaður til að losa um mikla ritstíflu, sem hefur verið að angra mig að undanförnu. Hef eiginlega engan áhuga á að blogga lengur, en þessi pistill ætti að losa um stífluna í bili.

Glæsilegt

Það er var aldeilis flottur árangur hjá Bjarna Sæm skákmeistara, sem er búsettur nú um stundir á Bahamaeyjum. Hvergerðingurinn, sem er líka með rætur í Borgarnesi, ef ég man rétt er sigurvegarinn, en ég er þó ekki viss hvort hann hafi teflt sem gestur eður ei. Það er líka gleðilegt að hann er skráður í hina geysi sterku sveit Víkingaklúbbsins, sem er á góðri leið með að verða Íslandsmeistari skákfélaga (í fjórðu deild).

4. daga veizla

Í húsinu á móti okkur var allt í einu slegið upp fjögra daga veislu, sem stóð allan daginn og langt fram á kvöld. Um sjöleitið alla dagana komu nokkrir munkar og kyrjuðu, en eftir það fóru gestir að streyma að með veitingar og á boðstólum var oft wiskey og bjór, en bjórinn var oftast af tegundinn Chang, en Shinga er ekki svo mikið drukkinn hér um slóðir. Einnig var Heinekenbjórinn til í miklu magni vegna þess að íbúi hússins er norskur sjómaður, Vidar rafeindavirki á stóru olíuflutiningskipi, sem kemur til Thailand sex sinnum á ári til að vera með fjölskyldu sinni. Mikið ljósa-show og tónlist kom frá húsinu, en einnig voru margir að spila í litlum hópum.

En samkvæmið kom því miður ekki til að góðu, því það hafði því miður orðið dauðsfall í fjölskyldunni og sonurinn á heimilinu Sai hafði veikst alvarlega sunnudaginn 4. nóvember og dó seinna sama dag. Upphafið mátti rekja til þess að laugardaginn 3. nóvember hittist öll stórfjölskyldan, meðal annars ungi maðurinn sem var að vinna í Kong Keng sem er í um hundrað kílómetra fjarlægð fra Wangsapung. Hann hitti þar fyrir fjölskyldu sína meðal annars Vidar mág sinn frá Noregi og konu hans, sem býr í Thailandi allt árið. Saman ætluðu þau nokkur saman að keyra um landið og fara m.a til Bangkok og Hua Hin. Allar fyrirætlanir breyttust að sjálfsögðu við þetta, en hópurinn hafði allur hist á laugardaginn og slegið var upp mikilli fjölskylduveislu, en sama dag komum við og heima í gamla húsinu á móti var líka haldin mikil fjölskylduveisla. Ungi maðurinn hafði víst drukkið of mikið í heimsókn sinni, en það kom í ljós að hann hefði verið á lyfjum frá lækni til að hætta að drekka, en sennilega hefur hann tekið inn Antapus og hugsanlega var það þess valdandi að daginn eftir fékk ungi maðurinn heilablóðfall og var keyrður á heimilisbílnum á spítalann í Wangsapung. Þar var enginn læknir, en hugsanlega hefði verið hægt að bjarga lífi hans með því að keyra hann beint á hátæknisjúkrahúsið í Loei, sem er einungis í 20 km. fjarlægð. Um það er ekki gott að segja.

Það voru auðvitað þung skref fyrir okkar að heimsækja þetta vinafólk okkar, en það var samt aðdáunarvert hvernig fólkið tókst á við þennan mikla harmleik og að tælenskum sið var slegið upp fjögra daga jarðarför, til að sem flestir vinir og velunnarar fjölskyldunnar ætti heimangengt. Norðmaðurinn Vidar bauð mér sérstaklega velkominn, en var auðvitað harmi sleginn eins og hinir fjölskyldumeðlimirnir.

Vidar kemur til Thailands sex sinnum á ári eins og áður hefur komið fram. Hann tekur mánaða túr á olíuflutningaskipinu, en stígur síðan upp í flugvél í heimabæ sínum í Noregi og flýgur beint til Amsterdam og þaðan beint til Bangkok, að hluta til á kostnað útgerðarinnar. Síðan leigir hann alltaf fyrsta flokks bílaleigubíl og heldur honum í þrjár vikur og skilar honum svo aftur í Bangkok. Vidar segir að það taki því ekki að kaupa bíl, hérna enda dvelji hann bara hálft árið í landinu. Þar að auki er hann vanur að ferðast mikið um, þannig að í hans tilfelli hentar best að leigja bíl í Bangkok og skila honum svo þrem vikum síðar. Þegar Vidar kemst á ellilaun ætlar hann loksins að byggja sér höll, fá sér Rottwailer og Dopermanhunda og vígvæða heimilið með rafmagnsgirðingu og skotvopnum. Ekki veitir af þegar menn bera ríkidæmið utan á sér. Sérstaklega í vaxtarlaginu.

Jarðneskar leifar Sæ voru settar í kistu, sem útbúin var sérstöku kælikerfi til að jarðneskar leifar hans væri hægt að geyma við húshita í fjóra daga. Vinir og vandamenn fengu síðan að kveðja hann hinstu kveðju alla fjóra dagana. Það var mjög sérkennileg tilfinning að mæti í kveðjuathöfnina til þessa vinafólk okkar, því við hliðina á glerlíkkistunni sátu flest kvöldin ættingjar og vinir og spiluðu á spil og drukku bjór og viskey, en það breytti því ekki að sorgin var mikil á heimilinu, þótt hefðir væru allt öðru vísi en maður sjálfur átti að venjast.

Hamagangur á Hóli

Ég er að reyna að sjá fyrir mér ef Ólafur Ragnar Grímsson sæti á milli þeirra Geir Haarde og Chavez. Nei mér datt þetta bara svona í hug, því ég hélt í einfeldni minni að Spánarkonungur væri vandaður rólyndismaður. En hvað um það þá fær Chavez mitt atkvæði ef það verður kosið á morgun. Lifi sósíalisminn! ¿Socialismo O Muerte?

Myndbandið hér:

Hundalif

Stóri hundurinn í Austuríki heitir Snúbbý, en stóru varðhundarnir í Thailandi heita Jennifer & Ronaldo

Frá Bratislava til Bangkok

Þetta var hálfgerð heimsreisa á nokkrum dögum. Við ætluðum til Bangkok, en enduðum í Bratislava í Slóvakíu. Ætluðum í sólina og hitann, en enduðum bak við gamla góða járntjaldið!
Mynd 1. Kjartan Friðþjófsson og fjölskylda voru strandaglópar líka í Kúben og við eltum þá (kona hans náði einu standby sæti og fór á undan Kjartani og frænda hans) til Vínar og Bratislava í Slóvakíu! Kjartan vinnur hjá SAS í Osló og var á leiðinni til Thailand eins og við. Hann reyndist líka vera af miklum skákættum.
Mynd 2. Er af Thailending, sem er í raun ekki Thailendingur heldur fæddur á Thailandi, en foreldrar hans eru frá Punjab á Indlandi. Hann er múslimi og af ríku klæðskerafólki kominn. Hann var strandaglópur í nokkra daga í Kúben eins og við. Það er eins og maður hefur sagt oft áður, að ekki kynnist maður Dönum í Kúben, heldur forríkum Punjabgaur, sem drekkur vel, þrátt fyrir að vera múslimi.
Mynd 3. Systir Deng býr í Kaindorf einum fallegasta og minnsta bæ Austuríkis. Þar dvöldum við tvo sólahringa







Til Bauna

Við erum núna komin til Kúben, þar sem við urðum hálfgerðir strandaglópar og sváfum á gólfinu á flugvellinum hjá Baunum. Fundum svo þessa fínu heimagistingu í Fredriksberg. Danir voru auðvitað jafn skemmtilegir að vanda og álit gamla mannsins á dónum minnkaði alls ekki neitt, vegna þess að hann hefur bara ekkert álit á Dónum (Dönum). Þessir ungu menn eru hins vegar Íslendingar í Danmörku.

Eyjvi

Ég hef hins vegar ákveðið að styðja EKKI landsliðsþjálfarann minn hann Eyjva (Eyjólf Sverrisson) áfram í starfi sínu sem landsliðsþjálfara. En reyndar er ég ekki svo hrifinn af því að reka hann, vegna þess að við gleymum því alltaf að við erum bara dvergríki í samfélagi þjóðanna. Samt höfum við látið landsliðsþjálfarana fara einn af öðrum, menn eins og Atli Eðvaldsson, Loga Ólafsson og Ásgeir Sigurvinsson svo nokkur dæmi séu tekin. Samt náðu þessir karlar mun betri árangri en Eyjvi. Tvö töp fyrir "stórliði" Letta. Tap og jafntefli við stórþjóðina Liechtenstein. Niðurlægðir af Svíum, Dönum og Spánverjum. Þessi árangur er óásættanlegur. Ég hafði strax í upphafi miklar efasemdir um að ráða landsliðþjálfara sem hafði aldrei þjálfað alvöru lið áður. Jú, hann hafði þjálfað ungmennalið Íslands með góðum árangri, en sennilega var hann ekki kominn með reynslu sem hann hefði seinna fengið og það er ekkert sem segir að Eyjólfur eigi ekki seinna eftir að verða hörku þjálfari, en núna stendur hann of nærri þeim leikmönnum sem hann var að þjálfa í tíma. Hann lék nú með mörgum af þessum strákum í landsliðinu á sínum tíma. Ég er nefnilega skíthræddur um að 14-2 metið fræga sé í hættu. Ísland leikur síðasta leikinn við Dani, sennilega á Parken, þar sem við gætum tapað stór. Það eru fjórir þjálfarar sem koma til greina í stöðuna að mínu mati (fyrir utan mig sjálfan). Í fyrsta lagi er það Óli Jó fyrrum þjálfari FH. Í Öðru lagi er það Willum Þór hinn sigursæli þjálfari Valsmanna. Í þriðja lagi er það Gaui Þórðar, sem náði bestum árangri sem Ísland hefur náð fyrr og síðar og að lokum er það óska þjálfarinn að mínu mati. Það er maður sem hefur þjálfað smærri landslið um allan heim og gert þau öll að stórum liðum. Hollendingurinn Guus Hiddink þjálfaði m.a S-Kóreu, Ástralíu og Rússa og hann væri örugglega til í að taka að sér enn eitt smáliðið fyrir góðan pening. Núna ættu nýríku peningamennirnir að taka upp veskið. Gaf ekki Róbert Wessman milljarð í einhvern háskóla í Reykjavík. Getum við ekki skikkað Bjarna Ármanns til að gefa c.a einn milljarð til knattspyrnulandliðsins (karla) af Rei peningunum okkar. Hann lagði nú hálfan milljarð í Rei, sem síðan varð einn og hálfur milljarður, sem síðar mun verða um tíu milljarðar, samkvæmt mati sérfræðingana. Þetta er frábær hugmynd að Bjarni Ármanns verði skikkaður til að verða Róman Abramovich Íslands.

Það eru bara þrír menn sem hafa vit á knattspyrnu á Íslandi. Það er Willum Þór, Guðjón Þórðarsson og ÉG. En að gefnu tilefni vil ég taka það fram að ég er ekki að taka við Íslenska landsliðnu. Ég hef bara ekki áhuga á því, meðan að efniviðurinn er ekki betra en þetta. Landsiðið í dag er bara Eiður Smári léttfeiti og tíu vélmenni. En hins vega skal ég hugsa málið ef Bjarni okkar Ármannsson réttir mér feita ávísun upp á milljarð yfir borðið og biður mig um að taka við landsliðinu. Ég er í ágætis vinnu og hef ekki tíma til að ferðast um einhver dvergríki með brjálaða fótboltamenn í eftirdragi. Ég veit alveg hvernig þeir haga sér á íslenskum hótelum, en ég segi ekki meira, enda má ég það ekki. Áfram Ísland!

Bingi

Ég hef ákveðið að styðja bloggvin min, jafnvel þótt hann sé hættur að blogga hérna og hafi fært sig annað. Bingi (Björn Ingi), sýndi mikið hugrekki þegar hann losaði sig við Villa Volgabjór og dvergana sex. Það ar augljóslega mikill klofningur hjá íhaldinu, sem ætlaði að steypa Villa gamla úr embætti og setja gleraugnagláminn hann Gils Martin í forustuna. Bingi vissi að íhaldstrunturnar myndu hefja rógsherferð um leið til að sverta mannorð hans. Núna veit ég að Bingi tók gífurlega áhættu pólitískt og lagði allt undir. Núna hefur Framsóknarflokkurinn sýnt að það er mikill töggur í honum að losa sig við samstarfsflokkinn og dvergana sex. Gamli góði Villi á hins vegar samúð mína alla að hafa ekki getað haft stjórn á Davíðsarminum og dvergunum sex, sem reyndu að mynda meirihluta bak við tjöldin með Vinstri grænum. Þetta baktjaldamakk skynjaðu Bingi og Don Alfredo, sem tóku af skarið og mynduðu nýjan REI-lista félagshyggjuflokkana á mettíma.

Hver sagði "R-listinn er fallinn og kemur aldrei aftur"?