Friday, May 18, 2007

Korter fyrir V (X-I)

Núna er kominn tíminn til að brjóta upp þetta fjórflokkakerfi. Ég hef reyndar lengi verið þeirrar skoðunar að fjórflokkakerfið á Íslandi væri náttúrulögmál. Skiptir þá engu hvaða ný framboð koma fram, því öll gefast þau upp á endanum og ganga aftur inn í gömlu fjórflokkana. Þekkt dæmi eru Samtök frjálslyndra og vinstri manna, Bandalag Jafnaðarmanna, Borgaraflokkurinn, Þjóðvaki, Flokkur mannsins,Kvennalistinn osf. Reyndar er Frjálslyndiflokkurinn hans Sverris ennþá lifandi, en ég er þeirrar skoðunar að ef svo ólíklega vill til að hann lifi af fleiri kosningar, þá verði það á kostnað Framsóknarflokksins. Annarhvor flokkurinn mun lifa af eða þeir sameinast eða nýtt miðjuafl verði til. Fjórflokkakerfið mun alltaf standa fyrir sínu. Skipti þá engu þegar jafnaðarmenn ætluðu að sameinast um árið (Alþýðuflokkur og Alþýðubandalagið), þá klufu Skallagrímur og félagar sig úr og stofnuðu einhvern Græningjaflokk að þýskri fyrirmynd, en kominn og sósíalistinn var falinn bak við græna litinn. Fjórflokkakerfið lifði af þessa árás eins og allar aðrar árásir. Eins og ég segi þá mun einn flokkur eyðast út á næstu misserum, en hvort það verði Frjálslyndir eða Framsókn veit guð einn.
Hins vegar kom núna í vor fram nýtt og stórmerkilegt framboð, þegar grínistinn og sjónvarpsmaðurinn Ómar Ragnarsson skaust fram á sjónarsviðið með nýtt og ferskt afl. ég verð að viðurkenna að ég er mjög hrifinn af þessu framboði, því hugjónir Ómars og félaga eiga svo sannarlega skilið að fá að heyrast. Í raun eru 70-80% landsmann sammála Ómari í grænu málunum. Fólk í öllum flokkum vill losa okkur við þennan stóriðjuhrylling, eins og ganga Ómars niður Laugaveginn sýndi fyrir nokkrum misserum. Það var alveg ótrúlegt umhverfisslys að virkja Kárahnjúka og daðra við bandaríska álrisa. Þess vegna á framboð Ómars fullan rétt á sér. Þegar Margrét Sverris var í Frjálslyndaflokknum var ég ekkert sérstaklega hrifinn af henni því hún var of mikill tilfinningapólitíkus og átti það til að sleppa sér, en það fannst mér alla veganna Hins vegar er ég mjög hrifinn af henni núna, þótt ég efast um að hún hafi viljað tala mikið um ESB og umhverfismál fyrir nokkrum mánuðum. En Ómar og Margrét þurfa bara c.a 2% fylgi í viðbót til að komast að með þrjá menn inn á þing. Það væri svo sannarlega gott fyrir þjóðina og lýðræðið. En er ég að kasta atkvæðinu út um gluggann ef ég kýs þau skötuhjú. Á ég ekki bara að kjósa Samfylkinguna eins og ég ætlaði mér alltaf.
Man alltaf þegar ég var krakki og var viðstaddur skemmtilega orðræðu milli tveggja góðra manna. Kosningar um forseta áttu að fara fram á næstu dögum og árið var 1980. Guðmundur gamli bakari sem var mikill vinur minn, sagðist vilja kjósa Albert Guðmundsson, en því miður hefði hann mælst svo lágt í skoðunarkönnunum, þannig að Guðmundur sagðist ætla að kjósa Guðlaug Þorvaldsson (sem var í hörkubaráttu við Vigdísi um efsta sætið). Guðmundur var sannfærður um að hann væri að henda atkvæði sínu út um gluggann með því að kjósa Albert og því vildi hann kjósa næst besta kostinn sem var í hörku baráttu um æðsta embætti þjóðarinnar. Margeir Pétursson þá ungur lögfræðinemi skammaði þá karlinn og sagði að hann væri að gera alrangt. Menn yrðu að kjósa eftir sinni sannfæringu. Sem dæmi tekið ætlaði Margeir að kjósa frænda sinn Pétur Thorsteinsson sendiherra (sem hafði eins og Albert ekki skorað hátt í könnunum) og Margeir var sannfærður um að hann væri að gera rétt með því að kjósa eftir sannfæringu sinni en ekki einhverjum könnunum. En Guðmundur ætlaði hins vegar að kjósa Guðlaug, enda sannfærður um að með því væri hann að nota atkvæði sitt rétt. Að sjálfsögðu skildu þeir sáttir, en hvorugur tókst að sannfæra hinn.
Eftir því sem árin hafa liðið hefur maður margoft heyrt menn rökræða um þetta atriði, en þetta samtal í denn hefur alltaf verið mér mjög minnistætt. Á maður að kjósa eins og hjartað segir manni eða á maður að kjósa eftir skynseminni. Ef hjartað mitt fengi að ráða myndi ég kjósa Ómar og veita honum þá hjálp sem þarf til að ná þessum 2-3 % sem upp á vantar til að Íslandshreyfinginn fái ekki engan þingmann heldur heila þrjá. En ef skynsemin fengi að ráða myndi ég kjósa Sannfylkinguna til að fella stríðs&kvótaflokkana úr ríkisstjórn. Svona er nú kosningakerfið hjá okkur. Ég held að það verði mjög gott fyrir lýðræðið ef það kæmu þrír hugsjónamenn inn á þing til að reyna að stoppa þessa stóriðjubrjálæðinga. Ómar yrði mjög skemmtilegur þingmaður.
XI.is

0 Comments:

Post a Comment

<< Home