Thursday, August 16, 2007

Stórmeistaralaun

Mikið rosalega var ég ánægður að Héðinn Steingrímsson sé nú orðinn fullgildur stórmeistari, eftir að hafa náð þrem tilskildum áföngum og 2500 eló-stigum, sem nauðsynleg eru í dag til að verða tilnefndur stórmeistari. Ég vona svo sannarlega að árangur Héðins verði til þess að þeir Stefan Kristjáns, Jón Viktor og félagar taki sig nú á og landi langþráðum titli. Vonandi gerist það sama og fyrir um tuttugu árum þegar fjórmenningaklíkan alræmda Jón L, Jóhann Hj, Margeir og Helgi Ólafsson skiptust á að ná stórmeistaraáföngum. Þegar Jóhanni tókst að landa fyrsta áfanganum þá fylgdu hinir allir í kjölfarið. Það er hins vegar merkilegt að ég hef aldrei teflt eða talað við Héðinn Steingrímsson. Ég var eiginlega alveg hættur að tefla þegar hann skýst fram á sjónarsviðið í lok níunda áratugarins og þegar ég byrjaði aðeins að gutla aftur nokkrum árum seinna var Héðinn að mestu hættur að tefla. Eins og áður segir þá þekki ég manninn bara úr fjölmiðlum en er samt mjög ánægður að hann hafi haft bæði burði og getu til að landa langþráðum titli, eftir að hafa verið í meira en áratug í fríi frá skákinni. Héðinn sagði í samtali við fréttamann ekki vera viss um hvort hann þiggja stórmeistaralaun frá ríkinu, sem hann á nú rétt á í framhaldi af árangrinum

Síðustu daga hafa laun stórmeistara verið í mikilli umræðu m.a á skákhorninu, spjallsvæði skákmanna, en fyrrnefnd skákhorn er ekki vinsælt hjá skákforustu landsins vegna ýmissa meintra dónaskrifa. Ég skil samt ekki þessa viðkvæmni með stórmeistaralaunin hjá skákforustunni, því þau virðast vekja upp svo miklar tilfinningar. Það rifjaðist einmitt upp samtal mitt við höfuð Áss-fjölskyldunnar fornvin minn Sigga Áss, en ég spurði hann í sakleysi mínu um stórmeistaralaunin fyrir nokkrum árum síðan. Við vorum þá að tefla saman í hinum geysivinsæla forgjafarskákklúbbi, þegar ég ákvað að forvitnast um stórmeistaralaunin í krónum og aurum. Taldi að Siggi vissi c.a hvað bróðir hans Helgi Áss hefði í laun frá ríkinu, enda stórmeistaralaunin þá umdeild eins og fyrri daginn. Elsti Ássinn var búinn að fá sér vel neðan í því (eins og ég) og misskildi forvitni mína og taldi að ég væri að stefna á þennan merka titil sjálfur. Heldur þú virkilega að þú hafi heilabú í að verða stórmeistari öskraði Ássinn og vildi að allir tækju eftir. Ég bað Sigga vinsamlegast um að róa sig og reyndi að fá hann til að skilja að í villtustu draumum mínum væri GM-áfangi í skák ekki á stefnuskrá minni, heldur væri ég bara að forvitnast um launakjör bróður hans. Ég benti honum líka á þá staðreynd að stórmeistarar væru ekki klónaðir kjarneðlisfræðingar og að ef greindarvísitala væri mæld í elo-stigum þá kæmi elsti bróðirinn í Áss-fjölskyldunni ekki vel út úr þeim samanburði. Ekki einu sinni í samanburði við geðdeildarfulltrúann. Annars hef ég veigrað mér við að ræða um stórmeistaralaunin við skákmenn eftir þetta. Þau eru og verða alltaf umdeild. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að ungir menn sem vinna einn GM áfanga eiga samstundis að fara á þessi laun að því gefnu að þeir stundi skákina af kappi. Menn eins og Stefán Kr, Jón Viktor, Bragi og fl. eiga að fá að njóta þessara hlunninda.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home