Vesturgötuvillan
Hvað á maður eiginlega að kjósa í dag? Yfirleitt hef ég verið viss í minni sök. Hef eins og meirihluti landsmanna verið að velta fyrir mér hvaða vinstri flokk ég á að kjósa. Er auðvitað jafnaðarmaður, en enginn stjórnmálaflokkur getur eignað sér hugtakið. Er meirað að segja að hugsa um að brjóta öll lögmál (sem er auðvitað leyfilegt í bæjar og sveitarstjórnarkosningum) og kjósa félaga minn Björn Inga, þrátt fyrir Íraksstríð, gjafakvóta, stóriðjustefnu og "farsæla" stjórnarsetu á landsvísu. Það skiptir mig engu máli núna, þegar ég hugsa um hag borgarinnar. Ég treysti Birni best og vona að hann komist inn. Svo er hann líka fjölskylduvinur, sérstaklega fyrir kosningar. Ég er hins vegar mikill stuðningsmaður Stefáns Hafsteins og var mjög svektur þegar hann tapaði fyrir Degi Bergþórusyni. Tími Dags Bergþórusonar mun eflaust koma seinna. Það er nefnilega alltaf þörf fyrir góða lækna. Björn Ingi er hins vegar sannur Vesturbæingur og heldur með KR. Hans lið í enska boltanum er Tottenham. Hann mun örugglega sækja stuðning sinn í Vesturbæinn, þar sem hann á vonandi bakland. Sumir vilja alltaf búa í Vesturbænum, en það er ekkert skilyrði að halda með KR, en áður fyrr jaðraði það við guðlast að gera það ekki. Þessa dagana er hins vegar unga fólkið í Vesturbænum að hugsa um eithvað annað en kosningar og fótbolta, því núna eru "krakkarnir" að búa til bensínsprengjur og stríðsástand er að skapast á Vesturgötu, þar sem margir virðulegir borgarar hafa kosið að eiga heimili. Það er reyndar ekkert nýtt að brjálæðingar sækja í Vesturbæinn. Þegar faðir minn var ungur sprengdu einhverjir félagar hans upp hina frægu hafmeyju, en málið komst aldrei upp. Faðir minn veit hins vegar hver gerði það.
0 Comments:
Post a Comment
<< Home